Unaðslega ljúffengt kálfasnitzel á sunnudagskvöldi

Matarást Sjafnar

Unaðslega ljúffengt kálfasnitzel á sunnudagskvöldi

Kálfasnitzel að hætti Sjafnar
Kálfasnitzel að hætti Sjafnar

Hvað er betra en að gera vel við sig og sína á sunnudagskvöldi og elda ljúffengt kálfasnitzel? Fjölskyldan mín veit fátt betra en meyrt kálfasnitzel með gómsætu meðlæti sem kitlar bragðlaukana. Kálfasnitzelið er eitt af uppáhalds réttunum hér á bæ. Ég elda og framreiði snitzelið annaðhvort á ítalska vísu eða austurríska. Ég legg mikið upp úr því að leggja fallega á borð, kveikja á kertum og framreiða máltíðina á metnaðarfullan hátt og eiga góða samverustund með fjölskyldunni meðan við njótum þess að snæða kvöldverðinn saman. Maður er manns gaman og matur er mannsins megin eru orð að sönnu.

Ljúffenga kálfasnitzelið að hætti Sjafnar

Fyrir 5 manns

  • 1200 g kálfasnitzel (fæst yfirleitt alltaf í Melabúðinni) barið vel niður með buffhamri
  • 200 g hveiti (má sleppa, ég nota ekki hveitið en sumir nota það til að eggjahræran haldist betur á)
  • heima­til­búið rasp eða rasp keypt út í búð frá Paxo, gott að blanda heimatilbúnu brauðraspi við það
  • 2 egg
  • sítrónupipar
  • Olífuolíu eða smjör til steik­ing­ar (ég nota olífuolíu)
  • Rifinn ferskan parmesanostur – má sleppa
  • Mozzarella ostakúla – má sleppa

Setjið brauðrasp á djúpan disk, pískið egg­in sam­an í skál og setjið á ann­an djúpan disk. Dýfið nú sneiðunum, einni í einu, fyrst upp úr eggj­un­um og síðan raspblönd­unni. Kryddið með sítrónupipar eftir smekk.

Hitið olífuolíu eða smjör á pönnu og steikið sneiðarn­ar. Þar sem að þær eru stór­ar rúm­ast varla fleiri en ein til tvær á pönn­unni í einu. Sneðarnar eiga að verða ljósbrún­ar og stökk­ar. Ekki hafa á hæsta hita en vel yfir miðlungs­hita og ekki spara olíuna/smjörið of mikið. Haldið til­bún­um sneiðum heit­um í fati í ofni á vægum hita, 150°C án blásturs. Passar vel að hafa sneiðarnar inni í 15 mínútur við vægan hita áður en þær eru bornar fram.

Ef þið viljið ost á sneiðarnar er upplagt að strá yfir parmesanosti eða skera mozzerallakúluna í sneiðar og leggja yfir sneiðarnar áður en þær fara inn í ofn. Mörgum finnst það rosalega gott og kitla bragðlaukana enn frekar.

Ef þið viljið nota heimatilbúið rasp þá er þetta aðferðin til þess: Raspið er hægt að gera með því að setja til dæmis sneiðar af bagettu í ofn og baka þær til að þær eru orðnar harðar en ekki brennd­ar. Mylja síðan niður í mat­vinnslu­vél.

Meðlætið hef ég annað hvort á ítalska vísu eða á austuríska vísu.

Ef ég elda og framreiði þennan rétt á ítalska vísu þá set ég gjarnan mozzarella ostsneiðar á kjötsneiðarnar, sýð spaghetti með og geri ítalska tómatastósu með basilku. Ber fram með rifnum parmesanosti og salati. Þetta er sturlað gott.

Ef ég elda þennan rétt og framreiði á austurríska mátann, þá er ég með steikarfranskar, piparsósu, maís, salat og sítrónusneiðar. Meyrt og ljúft undir tönn.

Verði ykkur að góðu.

 

 

Nýjast