Týr segir lilju ánægða með brotthvarf magnúsar – vill ráða sinn mann sem útvarpsstjóra

Lilja Alfreðsdóttir er umfjöllunarefni hjá Tý í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Týr er dulnefni og því ekki vitað hver skrifar, en Trausti Hafliðason er ritstjóri blaðsins. Þar er Lilja sökuð um að setja rekstur Þjóðleikhússins í uppnám og jafnframt að vilja ráða sinn mann í stað Magnús Geirs Þórðarson, en hann hefur sagt upp sem útvarpsstjóri og sækist eftir að setjast í stól Þjóðleikhússtjóra. Þá segir Týr að Magnús hafi staðið sig afar illa í starfi.  

Týr vitnar í viðtal við Lilju í nýjasta tölublaði Þjóðmála. Þar hafi Lilja haldið fram að á hennar vakt myndi Ríkisútvarpið ekki veikjast að nokkru leyti og nefndi hún þrjár ástæður. Týr segir: „Að stofnunin styðji íslenska menningu, að fréttastofan njóti trausts og að hlustun á Rás 1 hafi aukist. Gott og vel, en eru það ekki einmitt rök fyrir því að stórefla Rás 1 en loka hinu dótinu, sem engin sérstök ástæða er til þess að ríkið sé að vafstra við með mjög misjöfnum árangri og ærnum tilkostnaði?“

Heldur huldupenninn í Viðskiptablaðinu fram að verið sé að leggja ákveðinn embættakapal í menningarmálaráðuneytinu. Týr segir: „Þar var staða þjóðleikhússtjóra óvænt auglýst laus til umsóknar, þó núverandi þjóðleikhússtjóra hafi hvergi orðið á í messunni, reksturinn í mjög góðu lagi og sjálfgefið að halda honum áfram. Þetta þótti mörgum skrýtið, alveg þangað til Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri lýsti því yfir að hann ætlaði að sækja um, sig langaði í leikhúsið aftur.“

Týr segir ákvörðun Magnúsar Geirs ekki vekja neina furðu og hann hafi staðið sig illa í rekstrinum.

„Reksturinn ósjálfbær sem fyrr og skuldastaðan sömuleiðis, en einu ástæðurnar fyrir því að ekki er allt í kaldakoli í Efstaleiti eru þær að RÚV tókst enn einu sinni að sníkja milljarða meðgjöf úr ríkissjóði og lagðist jafnframt í fasteignabrask með lóðina, líkt og það sé í verkahring RÚV,“ segir Týr og heldur áfram: „Svo kannski það sé ekki seinna vænna fyrir Magnús Geir að hafa sig á brott, ekki síst þar sem yfirvofandi er stjórnsýsluúttekt um RÚV frá Ríkisendurskoðanda.“

Þá spyr Týr af hverju það ætti að verðlauna Magnús fyrir slakan rekstur með því að setja góðan árangur Þjóðleikhússins í uppnám. Segir Týr að „út undir vegg á Klausturbar“ sé hvíslað og Lilju sökuð um að standa hjartanlega á sama um Þjóðleikhúsið. Einnig vilji Lilja ráða sinn mann sem útvarpsstjóra og þess vegna fari hagsmunir hennar og Magnúsar saman.

Týr segir að lokum: „En það er  verra ef menningin er bara aukastærð hjá menningarmálaráðherranum.“