Kvartað undan skipan Sigríðar

Kvartað undan skipan Sigríðar

Tveir umsækjendur um starf seðlabankastjóra hafa skilað inn formlegri kvörtun til forsætisráðuneytisins vegna skipunar Sigríðar Benediktsdóttur sem formanns þriggja manna hæfisnefndar sem metur hæfi umsækjenda. Sigríður, sem er hagfræðingur við Yale háskóla og bankaráðsmaður í Landsbankanum, var skipuð án tilnefningar af Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. Telja þeir sem kvarta að Sigríður sé vanhæf. Frá þessu er greint í Markaðnum í dag.

Gagnrýni umsækjendanna tveggja snýr meðal annars að setu Sigríðar í bankaráði Landsbankans. Landsbankinn, sem stærsti viðskiptavinur Seðlabanka Íslands, eigi verulegra hagsmuna að gæta sem snúi að ýmsum ákvörðunum Seðlabankans.

Einnig er vísað til þess að í 26. grein laga um Seðlabankann, um skipan bankaráðs, er kveðið á um að ekki megi kjósa stjórnendur eða starfsmenn lánastofnana eða annarra fjármálastofnana sem eiga í viðskiptum við Seðlabankann til setu í bankaráði. Sömu sjónarmið ættu því að eiga við um þá sem eru skipaðir í hæfisnefndina og hafa aðkomu að því að velja seðlabankastjóra.

Þá er bent á að fyrir liggi frumvörp sem geri ráð fyrir sameiningu Seðlabankans og Fjármálaeftirlitsins. Fari svo að sú sameining verði að veruleika mun seðlabankastjóri bera æðstu ábyrgð á eftirliti með starfsemi fjármálafyrirtækja.

Sturla Pálsson er annar þeirra sem hefur lagt fram formlega kvörtun til forsætisráðuneytisins. Hann er framkvæmdastjóri markaðsviðskipta og fjárstýringar hjá Seðlabanka Íslands og starfaði með Sigríði um skeið í bankanum. Sigríður gegndi starfi framkvæmdastjóra fjármálastöðugleika á árunum 2011-2016.

Kvartanirnar bárust undir lok síðustu viku og eru nú til skoðunar hjá hæfisnefndinni og ráðuneytinu.

Nýjast