Tveir skýrir kostir í höfuðborginni

Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans:

Tveir skýrir kostir í höfuðborginni

Það er að komast mynd á þær fylkingar sem takast munu á í Reykjavík í komandi sveitarstjórnarkosningum. Líklegt er að Dagur B. Eggertsson borgarstjóri verði leiðtogi annarrar og Eyþór Arnalds, sem sigraði í leiðtogakjöri Sjálfstæðisflokks nýverið, verður í fylkingarbrjósti hinnar.

Þetta skrifar Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans á vef sinn og metur það svo að flokkar þessara tveggja manna verði stærstu öflin hvvor í sinni fylkingunni í borginni og því eðlilegt að álykta að annar hvor þeirra muni setjast í borgarstjórastólinn í byrjun sumars, að kosningum loknum.

"Skilin milli fylkinganna hafa líkast til aldrei verið skýrari," skrifar Þórður Snær og bætir við. "Valkostir borgarbúa um hvernig þeir vilja að höfuðborgin þróist og hverjar áherslur verði við stjórn hennar eru enda mjög ólíkir."

Hann heldur áfram greiningu sinni: "Önnur fylkingin, sem samanstendur af frjálslyndum og vinstriflokkum, leggur áherslu á þéttingu byggðar, auknar almenningssamgöngur, styrkingu félagslega kerfisins og það sem gagnrýnendur kalla „gæluverkefni“. Slík eru til að mynda rekstur mannréttindaskrifstofu. Þar er litið á borgarþróun sem mjög víðfeðmt verkefni sem eigi að teygja sig inn í flesta anga tilveru þeirra sem í borginni búa. Og vilji er til þess að Reykjavíkurflugvöllur víki úr Vatnsmýrinni fyrir frekari uppbyggingu á verðmætasta byggingarlandi borgarinnar."

Þórður segir hina fylkinguna samanstanda af íhaldssamari flokkum og nýjum flokkum sem náðu inn á þing í síðustu þingkosningum sem leggi áherslu á betra umferðarflæði þar sem einkabíllinn er í fyrirrúmi, byggingu stórtækra umferðarmannvirkja á borð við mislæg gatnamót, frekari uppbyggingu í útjaðri borgarinnar, lækkun skulda og skatta og betri umhirðu. Þar sé algjör andstaða við það að Reykjavíkurflugvöllur víki og Borgarlínuverkefnið sé verulega tortryggt. Þessari blokk finnist að megináherslan eigi að vera á að bæta grunnþjónustu á borð við dagvistun og að borgin eigi ekkert með að vera að beita sér í fínni blæbrigðum stjórnmálasviðsins.
 

"Fyrri fylkingunni tilheyra Samfylking, Píratar, Viðreisn, Björt framtíð og Vinstri græn," skrifar Þórður og segir viðmælendur Kjarnans innan allra þessara flokka segja að litlar sem engar líkur séu að þeir muni starfa með flokkum utan þessarar fylkingar að loknum kosningum í ljósi djúpstæðs málefnaágreinings.

Hinni síðari tilheyri Sjálfstæðisflokkur, Framsóknarflokkur, Miðflokkur og Flokkur fólksins.

Nýjast