Létust eftir aðgerðir hjá einkastofu

Tveir hafa látist eftir magaminnkunaraðgerðir hjá einkarekinni skurðstofu frá áramótum. Landlæknisembættið rannsakar þriðja tilfellið, þar sem alvarlegir fylgikvillar komu upp eftir sambærilega aðgerð, að því er RÚV skýrir frá.

Í frétt RÚV kemur fram að kona á fertugsaldri hafi látist fyrr á þessu ári á Landspítalanum, eftir að hún gekkst undir svokallaða magaermaraðgerð hjá fyrirtækinu Gravitas. Auðun Sigurðsson, skurðlæknir og eigandi Gravitas, segir í samtali við RÚV að hann hafi framkvæmt hundruð aðgerða af þessu tagi, en hafi einungis misst tvo sjúklinga. Það sé mikið áfall fyrir alla sem komi að þessu máli, og hann harmi stöðuna sem upp er komin. 

Sambærilegar aðgerðir eru einnig framkvæmdar á Landspítalanum. Þar er nokkur biðlisti og því leitar fólk á einkareknar sjúkrastofnanir, að því segir í fréttinni.