Tveir forsetar gestir í 21 í kvöld

Tveir forsetar verða gestir Sigmundar Ernis í fréttaþættinum 21 í kvöld, en hann er að hefja göngu sína á nýjaleik eftir sumarleyfi - og verður til að byrja með hálftímalangur, uns teygist fram á haustið en þá færist hann í fulla lengd og verður klukkustund.

Fyrri viðmælandi kvöldsins er Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands sem ræðir nýútkomna skýrslu sambandsins um launaþjófnað á Íslandi, en hún hefur vakið verðskuldaða athygli og sýnir og sannar að víða í atvinnulífinu, þó einkanlega í ferðaþjónustu og byggingariðnaði er launum stolið með skipulögðum hætti - og vel að merkja, án viðurlaga, enn sem komið er.

Seinni viðmælandi þáttarins er Ólafur Örn Haraldsson, forseti Ferðafélags Íslands sem ræðir áskoranirnar sem blasa við í fjalla- og ferðamennsku á Íslandi þar sem svara verður áleitnum spurningum á borð við ítölu á vinsælustu áfangastöðunum í byggð og óbyggðum.

Fréttaþátturinn byrjar sem fyrr klukkan 21:00 eins og hann á nafnið til.