Algengt að fólk geymi reiðufé heima

Tryggingasérfræðingar Sjóvá mættu á Heimilið í gærkvöld:

Algengt að fólk geymi reiðufé heima

Það er innbrotafaraldur á höfuðborgarsvæðinu - og augljóst af verksummerkjum um allan bæ að þar eru á ferðinni flokkar skipulagðra glæpamanna sem leita einungis að beinhörðum peningum og skartgripum og öðrum dýrgripum sem ekki taka mikið pláss í skjóðu.

Tryggingasérfræðingar Heimilisins, þeir Hafstein Esekíel Hafsteinsson og Hinrik Reynisson frá Sjóvá brýndu fyrir áhorfendum í gærkvöld að huga að forvörnum; gluggalæsingum, lýsingu og nágrannavörslu, en þótt heimilisfólk geti tryggt sig fyrir þeim óskunda sem innbrot eru og geti fengið tjónið bætt sé þar ein veruleg undantekning sem alltof margir gleymi; innbústryggingar nái ekki yfir reiðufé, altso seðlana sem fólk geymi undir kodda eða í illa læstum hirslum, en alltof mikið sé um það að fólk geymi peningana sína heima, eins og döpur dæmin sanni á undanliðnum árum.

Í viðtalinu við þá Hafstein og Hinrik er einnig fjallað ítarlega um frístundatryggingar, enda er sá árstími runninn upp sem landsmenn skella sér í vetrarfríin af öllu tagi - og þá er eins gott að vera rétt tryggður - og laga tryggingarnar að epli ferðanna, eins og vel kemur fram í viðtalinu.

Heimilið er frumsýnt öll þriðjudagskvöld klukkan 20:00 og endursýnt í dag, en einnig er hægt að nálgast þáttinn á vefnum hringbraut.is undir flipanum sjónvarp.

Nýjast