Trump staðfesti fund pompeos og kims

Donald Trump staðfesti í dag að Mike Pompeo forstjóri CIA og verðandi utanríkisráðherra hefði hitt Kim Jung-un leðitoga Norður-Kóreu leynilega í síðustu viku og tekist að koma á „góðu sambandi“ við hann.

Trump sagði á Twitter að fundurinn í Pjongjang hefði gengið mjög vel fyrir sig og nú væri verið að vinna að skipulagningu leiðtogafundarins sem fyrirhugaður er milli Kims og Trumps í síðasta lagi í júní.

„Kjarnorkuvopnaafvopnun verður frábær fyrir heiminn, en líka fyrir Norður-Kórelu,“ tísti forsetinn.

Mjög lítið er annars vitað um hvað Pompeo og Kim fór í milli, en gert er ráð fyrir að Pompeo hljóti staðfestingu Öldungadeildar Bandaríkjaþings sem utanríkisráðherra á næstu vikum.

Meðal borga sem nefndar hafa verið sem fundarstaður leiðtogafundarins eru Stokkhólmur, Genf, Bangkok, Singapore og Ulan Bator, höfuðborg Mongólíu.

 

Mike Pompeo met with Kim Jong Un in North Korea last week. Meeting went very smoothly and a good relationship was formed. Details of Summit are being worked out now. Denuclearization will be a great thing for World, but also for North Korea!

— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) April 18, 2018