Trump rekið 30 á einu ári

Bandaríkjaforseti samur við sig:

Trump rekið 30 á einu ári

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur rekið eða losað sig við nærri þrjátíu starfsmenn á því rúma ári sem hann hefur setið í embætti. Aðstoðarforstjóri alríkislögreglunnar var rekinn fyrir helgi og það fjölgar líklega í hópnum á allra næstu dögum.
 

Þetta kemur fram í samantekt ruv.is í dag en þar segir að starfsmannaveltan í Hvíta húsinu hafi verið mikil í forsetatíð Trumps og engu líkara en að hann hafi ekki alveg sagt skilið við hlutverk sitt í raunveruleikaþáttunum the Apprentice, en fram að forsetaframboðinu var, Þú ert rekinn, líklega frasinn sem flestir tengdu við Trump, en svo virðist sem hann setji mikinn svip á tíma hans í embætti líka. 

Fyrst undir fallöxina var Sally Yates dómsmálaráðherra en eftir að rannsókn alríkislögreglunnar á afskiptum Rússa af kosningunum vatt fram fylgdu fleiri, og fleiri. James Comey, forstjóri Alríkislögreglunnar, fékk að fjúka í fyrravor og eftir því sem leið á sumarið fækkaði stöðugt í hópi þeirra sem höfðu starfað hvað nánast með forsetanum. Þau sem komu ný inn entust stutt, en enginn var jafn skammlífur og Anthony Scaramucci sem var rekinn eftir tíu daga í starfi. Hópurinn sem hefur horfið á braut er nokkuð fjölbreyttur og þó meirihluti þeirra hafi sagt af sér hefur flestum þeirra verið nauðugur sá kostur, og bandarískir miðlar segja líklegt að það fjölgi í þessum hópi á allra næstu dögum. 

Uppsagnirnar hafa ekki verið eftir hefðbundnum leiðum. Mörg hafa verið rekin í gegnum samfélagsmiðla og forsetinn virðist nærast á því að fjölmiðlar geri sem allra mest úr uppsögnunum. Jeff Sessions dómsmálaráðherra rak Andrew McCabe, fyrrverandi varaforseta alríkislögreglunnar, í gærkvöld. Hann hefði geta farið á eftirlaun á morgun, en líklegt er að brottreksturinn verði til þess að hann missi þau réttindi. Það er í höndum Sessions en margir telja að hann sé næstur á lista Trumps og yrði þá annar dómsmálaráðherrann sem Trump losar sig við eftir fjórtán mánaða stjórnartíð, segir í samantektinni á ruv.is.

Nýjast