Tók saman lista yfir erfiða fréttamenn

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fór nýjar leiðir í kosningabaráttu:

Tók saman lista yfir erfiða fréttamenn

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson greiddi almannatengslamanninum Viðari Garðarssyni rúmlega eina milljón króna úr eigin vasa vegna vinnu við kosningabaráttu fyrir hálfu öðru ári síðan.
 
Sigmundur Davíð var þá nýfallinn sem formaður Framsóknarflokksins. Viðar útbjó heimasíður sem halda áttu málstað Sigmundar á lofti eftir uppljóstranir Panamaskjalanna og er skráður ábyrgðarmaður Veggsins hjá Fjölmiðlanefnd. Viðar lét líka taka saman hvaða fjölmiðlamenn hefðu reynst Sigmundi erfiðastir í Panamaskjölunum, að því er fram kemur í samantekt ruv.is um málið.

 

Fyrirtækið Forysta tapaði í gær dómsmáli gegn Framsóknarflokknum þar sem það krafðist rúmlega fimm og hálfrar milljón króna fyrir vinnu í aðdraganda fyrirhugaðrar kosningabaráttu. Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, leitaði til Viðars, framkvæmdastjóra Forystu, skömmu eftir uppljóstranir í Panamaskjölunum. Þar komu við sögu Sigmundur Davíð, Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, þáverandi borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, og Hrólfur Ölvisson, þáverandi framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins. Viðar vann undirbúningsvinnu að kosningabaráttu eftir samtöl við Sigmund Davíð og fleiri framámenn í Framsóknarflokknum. Forystumenn flokksins, eftir átakalandsfund 2016, könnuðust ekkert við að hafa beðið um slíkt og neituðu að borga fyrir vinnuna. Sigmundur Davíð greiddi Viðari 1.090.000 krónur í útlagaðan kostnað í samræmi við fyrra fyrirheit sitt. 

Í dómnum kemur fram að Viðar setti upp síðurnar Panamaskjolin.is og Islandiallt.is fyrir Sigmund Davíð. Nöfn aðstandenda komu ekki fram á vefjunum. Þar sagði að þeim væri haldið úti af stuðningsmönnum Sigmundar Davíðs. Fyrri vefurinn var hugsaður til varna vegna Panamaskjalanna og sá síðari til að sækja fram, að því er fram kemur í dómnum.

Í dómsmálinu var ekkert minnst á þriðja vefinn sem Forysta og Viðar eru í forsvari fyrir. Það er vefurinn Veggurinn.is. Hann var skráður sem fjölmiðill hjá Fjölmiðlanefnd 6. apríl 2016, það var þremur dögum eftir að sérstakur aukaþáttur Kastljóss um Panamaskjölin var sendur út. Ristjórnarstefnunni er lýst með þessum orðum: „Miðlun á fréttum og dægurmálatengdu efni.“ Í dómnum kemur fram að Guðfinna hafði samband við Viðar í maí 2016, mánuði eftir að Veggurinn var skráður sem fjölmiðill.

Vefurinn hóf göngu sína síðla árs 2015 með margvíslegum fréttum og greinum. Síðar átti hann eftir að verða mjög hliðhollur Sigmundi Davíð með fréttum og greinum þar sem málstað hans var haldið á lofti eða andstæðingar hans gagnrýndir. Þetta var ekki síst áberandi fyrir síðustu þingkosningar.

Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar, hafði ekki haft tök á að lesa dóminn þegar fréttastofa ræddi við hana. Hún sagði að miðað við lýsingar þá væri ekkert í fjölmiðlalögum sem tæki á þessu. Þar væru ákvæði um gagnsæi í eignarhaldi fjölmiðla en ekki væri kveðið á um fjármögnun þeirra.

Viðar sagði fyrir dómi að hann hefði fengið Svan Guðmundsson, eiginmann Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur, borgarfulltrúa Framsóknar og flugvallarvina, til að greina hvaða blaðamenn hefðu skrifað hvað og „hverjir hefðu verið Sigmundi Davíð erfiðastir“. Svanur var kosningastjóri Framsóknar og flugvallarvina í borgarstjórnarkosningunum 2014 og Miðflokksins í þingkosningum í fyrra.

Nýjast