Töff notkun á bláberjum

Nú hefur berjatínsla verið í gangi hjá mörgum sem missa ekki úr ártíð berjauppsprettunnar. Berin eru þó feitust og best á austurlandi eftir mikið rigningasumar, af fréttum að dæma úr miðlum landshornanna. 

Berin hafa undanfarið fengið fleiri hlutverk en að sjóða í sultu – nú sjúga hollustumorgunbústin þetta í sig og vítamín C er víst það sem mest fæst úr þessum bláu.

Sú sem þetta ritar hefur fundið nýjung sem er spennandi. Leitt að uppruni uppskriftarinnar hefur týnst í völundarhúsi tölvunnar en hér er uppskrift sem ætti að gleðja ævintýragjarna:

Hér er uppskrift fyrir þá sem ná miklu í dallana og stuttur formáli:

Bláberjachutney eða kryddmauk er alger snilld passar fullkomlega með villibráð og kjöti og með ostum. Það er dásamlegt út í sósur og frábært að blanda því við sýrðan rjóma eða gríska jógúrt til að fá ferska kalda sósu með kjöti eða villbráð.

Svo tekur enga stund að búa það til og bragðið verður bara betra með tímanum. Þessi uppskrift er í 3-4 litlar krukkur en mjög einfalt er að stækka hana með því að hreinlega tvöfalda allt í uppskriftinni.

Bláberjachutney

  • 1 tsk ólífuolía
  • 1 skallottulaukur, fínsaxaður
  • 450 gr bláber
  • 4 msk púðursykur
  • 4 msk hunang
  • 5 msk rauðvínsedik
  • 1/4 tsk kanill, malaður
  • 1/4 tsk engifer, malaður
  • 1/4 tsk salt
  • 12 fennelfræ, heil

Undirbúningur: 10 mínútur

Suðutími: 15 mínútur

Settu ólífuolíu í pott og steiktu fínsaxaðan skallottulaukinn í 2-3 mínútur. Bættu nú bláberjum, sykri, hunangi, ediki og kryddi út í, hrærðu vel og láttu sjóða þar til fer að þykkna eða í 8-12 mínútur. Ef þú vilt hafa chutneyið þykkt þá geturðu soðið það niður í lengri tíma.

Settu í sótthreinsaðar/hitaðar krukkur og skrúfaðu lokið vel á. Geymist í ísskáp í 3-4 mánuði.