Tillaga Sjálfstæðismanna ekkert nýtt

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra í 21 í kvöld:

Tillaga Sjálfstæðismanna ekkert nýtt

„Ég fagna öllum liðsauka hvað varðar menntamálin og auðvitað tekur fólk eftir því að undir minni forystu  erum við búin að vera í sókn hvað varðar iðn-, verk- og starfsnám“, segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra aðspurð um nýtt frumvarp sem Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, formaður menntamálanefndar fyrir Sjálfstæðisflokkinn, hyggst leggja fram og er í sama anda og frumvarp sem níu þingmenn Sjálfstæðisflokks lögðu fram í haust.  

Frumvarpið snerist í stórum dráttum um að háskólar gætu sett sér hvaða reglur sem þeir vildu um að innrita fólk sem væri ekki með stúdentspróf. Háskólar ættu að geta metið aðra þekkingu og reynslu umsækjenda, t.d. úr atvinnulífinu, til jafns við stúdentspróf.  

Lilja segir þetta nú þegar komið til framkvæmda og reglugerð sem hafi verið samin í opnu samráðsferli sé þegar orðin gild. Sjálfstæðismennirnir hafa ekki verið í neinu samráði við Lilju sem fer með menntamálin í ríkisstjórninni.

Hún bendir á að undir hennar stjórn hafi  fjármunum verið forgangsrað til þess að bæta starfsumhverfi  iðn-, verk- og starfsnáms, m.a. hefur efniskostnaður verið felldur niður. „Það sem við erum að sjá er að út af þessari áherslubreytingu hefur til að mynda orðið 33 prósent aukning á aðsókn í iðnnám, sem er rosalega jákvætt“, segir Lilja einnig og tekur undir að auglýsingaherferð, m.a. með áherslu á iðnnám og konur skipti máli. 

Þetta er meðal þess sem rætt er við Lilju í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í kvöld en einnig er komið inn á niðurgreiðslu á útgáfu bóka á íslensku, stöðu kennara, menntastefnu til lengri tíma, tímabundna friðun Víkurkirkjugarðs og stöðu einkarekinna fjölmiðla á móti hinum ríkisreknu.

 Enn ósátt vegna Klaustursmálsins

Aðspurð um hvort hún hafi lagt að baki sér meiðandi ummæli á Klaustursupptökunum segist Lilja einfaldlega halda áfram: „Það er heilmikið sem þarf að gera, ég er að vinna í stórum málum og mér finnst mjög brýnt að halda áfram. Maður þarf auðvitað að vinna úr þeirri stöðu sem upp kemur og þetta er auðvitað þannig mál. Maður er auðvitað ekki sáttur við hvernig þetta var allt, ég verð bara að vera hreinskilin með það. En hins vegar er það svo að þegar eitthvað svona kemur upp þarf maður að einblína á aðalatriðin, hvað maður telur sig vera að gera gott fyrir íslenskt samfélag“, segir Lilja.

Nýjast