Tilkynnt um fjórar líkamsárásir á bíladögum – 97 kærur vegna hraðaksturs

Fjórar líkams­á­rásir voru til­kynntar á ný­af­stöðnum Bíla­dögum sem fóru fram á Akureyri um helgina. Samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni á Norðurlandi eystra voru alls 305 verkefni skráð frá fimmtudagsmorgni og til hádegis í dag og því óhætt að segja að helgin hafi verið erilsöm.

Af málunum 305 voru 97 kærur vegna of hraðs aksturs, sex voru kærðir vegna aksturs undir áhrifum áfengis, fjórar líkamsárásir voru skráðar, einn var kærður fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna og einn fyrir vörslu fíkniefna.

Nokkur umferðaróhöpp áttu sér stað en engin slys urðu á fólki. Þá hefur ekkert kynferðisbrot verið kært til lögreglu.

„Í heildina má segja að helgin hafi verið erilsöm hjá okkur í lögreglunni en engin stór eða alvarleg mál komu upp og við því sæmilega sátt,“ segir í tilkynningunni frá lögreglunni á Norðurlandi eystra.

Tilkynningar vegna ónæðis

Fimm tilkynningar um ónæði vegna hávaða og mengunar bárust lögreglunni.

„Því miður hefur það loðað við Bíladaga að þeim hefur fylgt ónæði fyrir bæjarbúa, vegna hávaða og mengunar sem verður þegar spólað er á götum bæjarins. Við viljum meina að þetta hafi þó lagast töluvert. Þó er alltaf einn og einn svartur sauður innan um sem getur ekki stillt sig um að haga sér eins og bjáni. Við gerum okkar besta til að stemma stigu við þessu, svo sem eins og að vera með ómerkta lögreglubíla í umferð og fylgjast sérstaklega með ákveðnum svæðum. Það verður þó aldrei þannig að við séum alls staðar alltaf,“ segir einnig í tilkynningunni.