„þýska alríkislögreglan þarf að axla sína ábyrgð á stærsta réttarfarshneyksli íslandssögunnar“

„Þýska alríkislögreglan (BKA) þarf að axla sína ábyrgð á stærsta réttarfarshneyksli Íslandssögunnar. Þýsk stjórnvöld hafa nú staðfest umfangsmikla aðstoð alríkislögreglunnar með aðkomu bæði þáverandi forseta hennar og þá­verandi ráðuneytisstjóra innanríkisráðuneytis Vestur-Þýskalands Siegfried Fröhlich.“

Þetta segir þýski þingmaðurinn Andrej Hunko í samtali við Fréttablaðið í dag. Á dögunum lagði hann, ásamt nokkrum samflokksmönnum sínum í Vinstri flokknum á þýska þinginu, fram fyrirspurn til þýskra stjórnvalda um aðkomu Þjóðverja að rannsókn Guðmundar- og Geirfinnsmálanna.

Eftir að hafa borist svar frá þýskum stjórnvöldum í vikunni segir Hunko það löngu tímabært að þýsk stjórnvöld bjóði íslenskum stjórnvöldum alla mögulega aðstoð við að koma þætti Þjóðverja í málinu á hreint. Í svari þýskra stjórnvalda kemur fram að engin beiðni um slíka aðstoð hafi borist frá íslenskum yfirvöldum.

„Að mati Gísla Guðjónssonar réttarsálfræðings, voru það yfirheyrsluaðferðir BKA sem leiddu til hinna fölsku játninga sem veittar voru í málinu. Þýska ríkið þarf að bæta þolendum málsins fyrir þær aðferðir sem notaðar voru og skiluðu fölskum játningum,“ segir Hunko.

Sem dæmi um yfirheyrsluaðferðir BKA nefnir hann einangrunarvist sakborninga, vatnspyndingar, lyfjagjafir og dáleiðingar sem hafi verið prófaðar á þeim. Hunko segir að bætur til þolenda málsins ættu að gilda jafnt um þá sem eru enn á lífi og aðstandendur þeirra sem eru látnir.

Í svari stjórnvalda kemur fram að Pétur Eggerz hafi í samtali við Fröhlich óskað eftir aðstoð BKA við rannsóknir morðmála á Íslandi. Fröhlich hafi ekki talið aðkomu BKA ráðlega til að byrja með en síðar bauðst hann til að hafa samband við Karl Schütz, sem var þá nýkominn á eftirlaun. Reyndist Schütz reiðubúinn til aðstoðar og hélt til Reykjavíkur þar sem samið var við hann.

Þýsk stjórnvöld greina frá því í svari sínu að þau telji að þar sem Schütz hafi verið kominn á eftirlaun hafi hann veitt aðstoð sína í eigin nafni en ekki á vegum BKA.

Hunko gagnrýnir þessa afstöðu stjórnvalda, sem hann segir yfirlýst ábyrgðarleysi. Hann telur þetta vera þversögn þar sem ljóst sé af svari stjórnvalda að lagt hafi verið á ráðin milli háttsettra embættismanna um aðkomu Schütz, auk þeirrar tækniaðstoðar sem þýsk stjórnvöld veittu við rannsókn málanna. Þá hafi fimm þýskum embættismönnum, auk Schütz, verið launað fyrir störf sín með heiðursorðum íslenska ríkisins.