Þvingaður leikur samkeppniseftirlitsins?

Málefni Icelandair og WOW setja eðlilega svip sinn á fyrri hluta þáttarins í kvöld hjá Jóni G. Hann fær Trausta Hafliðason, ritstjóra Viðskiptablaðsins, til að fara yfir stöðu málsins með sér. Það er mikill titringur í lofti. Verður þetta sagan endalausa? Varla. Hvaða jafnræði var Fjármálaeftirlitið með í huga þegar það stöðvaði viðskipti með hlutabréf í Icelandair Group á mánudag?  Það hafa fáir áttað sig á því. Sá kvittur hefur gosið upp að Samkeppniseftirlitið ætli að skilgreina yfirtökuna og markaðinn mjög þröngt. En er þetta ekki að þessu sinni þvingaður leikur hjá Samkeppniseftirlitinu; það hefur örlög WOW í hendi sér. Höfnun eða aðrar hindranir setja WOW líklegast á höfuðið.

Er það besta staðan fyrir neytendur og flugfarþega á Íslandi? Samkeppni birtist í fleiru en verði flugmiða, t.d. þjónustu og áfangastöðum. Ef til vill óttast ýmsir hluthafar í Icelandair Group að WOW verði of erfiður biti að kyngja og geti dregið félagið niður. Svo eru það orð Skúla um að hann sé samhliða að ræða við aðra en Icelandair. Sú yfirlýsing er væntanleg sögð í örvæntingu; hann hefur örugglega verið búinn að þreifa fyrir sér og ræða við önnur flugfélög áður en hann sneri sér að Icelandair Group. Er WOW ekki einfaldlega orðið of stórt til að falla? Jón G. og Trausti Hafliðason. Kl. 20:30 í kvöld.