Þungur rekstur systur og mikkeller & friends sligaði dill

Í gær var greint frá því að veitingastaðnum Dill hefði verið lokað. Á sama tíma var veitingastaðnum Systur og barnum Mikkeller & Friends. Staðirnir þrír deildu húsnæði að Hverfisgötu 12 og voru allir reknir af sama rekstrarfélagi. Vísir greinir frá því að rekstur Dill hafi gengið vel en að rekstur Systur og Mikkeller & Friends hafi verið þungur síðustu mánuði.

Þar sem staðirnir þrír voru reknir af sama rekstrarfélagi, á sama leyfinu og sömu kennitölu fór það svo að rekstur Systur og Mikkeller & Friends sligaði að lokum rekstur Dill. Raunar var það svo að undir það síðasta bar velgengni Dills hina staðina tvo uppi.

Dill hefur enda verið einn vinsælasti veitingastaður Reykjavíkurborgar og aðsóknin slík að oft hefur reynst erfitt að panta borð. Staðurinn er sá fyrsti og eini í Íslandssögunni sem hefur fengið Michelin-stjörnu.

Michelin stjarnan fékkst árið 2017 en Dill tapaði henni þó í upphafi þessa árs. Í viðtali við Morgunblaðið undir lok apríl var þrátt fyrir það engan bilbug að finna á Gunnari Karli Gíslasyni matreiðslumeistara og eins stofnenda Dill þrátt fyrir að staðurinn hefði misst stjörnuna. Sagði hann þá að missir Michelin-stjörnunnar hafi komið sér á óvart en að áætlað væri að endurheimta hana.

Erfiður vetur

Gunnar Karl er einn eigenda staðanna þriggja og segir í samtali við Vísi að í vetur hafi verið fullt á Dill „meira og minna alla daga.“ Systir og Mikkeller & Friends hafi hins vegar átt erfiðan vetur.

Hann segir erfiðan vetur síðan hafa breyst í martröð og vísar þar til stórtækra gatnaframkvæmda á Hverfisgötunni. Framkvæmdirnar hafa valdið raski á umferð akandi og gangandi vegfarenda.

Gunnar Karl segir að ekki hafi verið hægt að fórna Systur og Mikkeller & Friends til að tryggja áframhaldandi líf Dills, þar sem allir staðirnir þrír hafi verið reknir á sömu kennitölu og á sama leyfinu, eins og áður segir.

„Þá lokar allt,“ segir hann og bætir við:. „Það er mikil synd að Dill hafi þurft að falla með hinum tveimur stöðunum, en svona er það.“

Gunnar Karl segist ekki vita framhaldið. Hann segist auk þess ekki geta staðfest hvort búið sé að fara fram á gjaldþrotaskipti rekstrarfélags staðanna þriggja.