Nýtt: þroskahamlað fólk spyr foringjana

Átak, félag fólks með þroskahömlun efnir í dag til einstæðs stjórnmálafundar í aðdraganda alþingiskosninganna 2016 og spyr frambjóðendur hvað þeir ætli að gera svo allar manneskjur, fatlaðar sem ófatlaðar, fái notið sín í samfélaginu og lifað þar með reisn.

Hér verður spurt af einlægni og óvanalegu hispursleysi um stjórnmál líðandi stundar svo eftir verður tekið.

Þetta er í fyrsta skipti sem félag fatlaðs fólks efnir til eigin pallborðsumræðna í beinni útsendingu í sjónvarpi hér á landi – og er verkefnið unnið í samvinnu við sjónvarpsstöðina Hringbraut og sýnt þar beint mánudagskvöldið 24. október frá klukkan 17:30 til 19:30.   

Verkefnið er samstarfsverkefni Átaks, sjónvarpsþáttarins Með okkar augum og Sendiherra Samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, en meðal spyrla verða sjónvarpskonan Katrín Guðrún Tryggvadóttir og sendiherrann Ína Owen Valsdóttir, en fundarstjóri er sjónvarpsmaðurinn Andri Freyr Hilmarsson.