Þessi þrjú lykilatriði við fasteignakaup skipta öllu máli

Fasteignaviðskipti eru alla jafna stærstu fjárhagslegu viðskipti sem einstaklingar gera á lífsleiðinni og þau viðskipti eru ekki tíð. Því er mikilvægt að afla sér góðra upplýsinga áður en haldið er af stað, fá útskýringar frá sérfræðingum, kynna sér markaðinn vel sem og þá eign sem um ræðir. Hægt er að benda á fjölmörg atriði sem ber að hafa í huga en einkum eru það þrjú lykilatriði sem sérfræðingar leggja áherslu á að höfð séu í huga þegar kemur að því að kaupa fasteign.

Greiðslumat er tækifæri

Láttu greiðslumat vera það fyrsta sem þú gerir, fáðu heildaryfirsýn yfir þín fjármál áður en farið er af stað í ferlið. Greiðslumatið felur í sér frekar ítarlega greiningu á fjárhagstöðu viðkomandi og gefur því góða mynd af því hversu dýra eign viðkomandi getur keypt. Matið er einnig sett þannig fram að það á að stuðla að skynsamri og upplýstri lánaákvörðun, komi til hennar.  Greiðslumat nýtist þeim sem eru að kaupa fasteign en það er einnig fyrir þá aðila sem vilja endurfjármagna lánin sín, auka við núverandi lánveitingu eða fyrir þá sem vilja fá heildaryfirsýn á fjármálin sín.

Óverðtryggt eða verðtryggt húsnæðislán

Mikilvægt er að skilja muninn á verðtryggðu og óverðtryggðu húsnæðisláni svo hægt sé að taka upplýsta ákvörðun um lánamöguleika. Við val á láni eða lánum er æskilegt að lántakendur myndi sér skoðun á hvernig lán þeir vilja taka og þá út frá sínum markmiðum. Er ætlunin að byggja upp eigið fé í fasteigninni eða hafa lægri og viðráðanlegri mánaðarlegar afborganir? Þetta eru dæmi um mismunandi markmið sem hafa ber í huga við val á lánamöguleikum.

Ástand fasteignar

Fyrir langflesta skiptir ástand fasteignar miklu máli og því mikilvægt að fólk fái góða mynd af því áður en formlegt kauptilboð er framkvæmt. Það getur verð flókið, tímafrekt og kostnaðarsamt að vinna úr málum vegna galla á fasteignum sem upp koma eftir eigendaskipti. Gott er að fá fagaðila til að meta ástand eignarinnar þar sem oft er um að ræða galla sem ekki eru augljósir við fyrstu sýn eða á yfirborðinu.