Þrjár blokkir með nýrri kjölfestu á miðjunni

 

Sumir kvarta yfir fjölda framboða. Mörg framboð geta vissulega leitt til glundroða og erfiðleika við stjórnarmyndun. Á móti kemur að aðeins sjö flokkar eru líklegir til að fá menn kjörna. Skoði menn svo málefnastöðu flokkanna kemur í ljós að hún mynda þrjár skýrar blokkir.

Flækjan er því ekki eins mikil og ætla mætti þegar menn telja þá sem mæta í umræðuþætti sjónvarpsstöðvanna. Í raun má færa rök fyrir því að kjölfestan í pólitíkinni sé fremur að þyngjast en léttast.

Skoðanakannanir benda til mjög afgerandi breytinga. Það sést ekki aðeins á tölum um fylgi einstakra flokka.  Málefnalóðin raðast líka með öðrum hætti á vogarskálarnar.

Hrunið leiddi til þess að vinstri flokkarnir fengu í fyrsta skipti í sögunni umboð til að mynda stjórn án málamiðlana yfir miðjuna.  Vinstristjórnin missti öruggan meirihluta niður í tæpan þriðjung. Síðan kom hægristjórn. Fylgi hennar sýnist ætla að fara á sama veg.

Fyrst kom slagsíða til vinstri og svo slagsíða til hægri. Breytingin núna felst í því að kjölfesta er að myndast á miðjunni. Það á að auðvelda stefnumörkun með breiðari skírskotun og jafnframt að gera mönnum kleift að horfa til lengri tíma.

Eins og skoðanakannanir standa er vinstri blokkin sterkust. Píratar hafa fram til þessa mælst með mest fylgi. Samfylkingin hefur aftur á móti dalað. En engum dylst að VG er hryggjarstykkið í þessari blokk.

Ríkisstjórnarflokkarnir, Sjálfstæðisflokkur og Framsókn, mynda hægri blokkina. Þó að Framsókn hafi byrjað kjörtímabilið nánast jöfn Sjálfstæðisflokknum að stærð og hafi verið fyrirferðarmeiri í samstarfinu hafði hún þegar fyrir Panamaskjölin misst meir en helming fylgisins.  Sjálfstæðisflokkurinn er því  þungamiðjan í þeirri blokk.

Á miðjunni eru Viðreisn og Björt framtíð. Skoðanakannanir benda til þess að þyngdarpunkturinn í miðju blokkinni liggi í Viðreisn. En standi þessir tveir flokkar saman þegar kemur að umræðum um málefnasamstarf eiga þeir alla möguleika á því að verða kjölfestan í nýrri ríkisstjórn. Það er í þessari stöðu sem mestu möguleikarnir til breytinga og stöðugleika liggja.

Það eru tvær mögulegar leiðir framhjá  kjölfestunni á miðjunni. Önnur er sú að vinstri flokkarnir fái hreinan meirihluta. Hin er sú að vinstri flokkarnir með Pírötum semji við ríkisstjórnarflokkana. Auðvitað er ekki unnt að útiloka að það gerist en virðist þó vera fjarlægt.

Þegar öllu er á botninn hvolft sýnist sú mikla gerjun sem nú á sér stað í pólitíkinni ekki ætla að leiða til upplausnar. Miklu fremur má segja að hún sé líkleg til að leiðrétta slagsíðu tveggja síðustu kjörtímabila, varða leið til margvíslegra breytinga og varðveita stöðugleika til lengri tíma.