Þrír popúlista­flokkar á íslandi

Þrír íslenskir stjórnmálaflokkar eru skilgreindir sem popúlistaflokkar í nýrri, ítarlegri úttekt breska blaðsins Guardian um uppgang popúlistaflokka í Evrópu undanfarin ár. 
    
Flokkarnir þrír eru Borgarahreyfingin, Miðflokkurinn og Flokkur fólksins en þeir eru merktir inn á graf sem sýnir hvaða popúlistaflokkar hafa fengið atkvæði í kosningum í Evrópu undanfarin tuttugu ár.

 „Hreina fólkið“ gegn „spilltu elítunni“

Á grafinu er Miðflokkurinn staðsettur lengst til vinstri á vinstri/hægri ásnum og Borgarahreyfingin lengst til hægri. 

Leiða má líkum að því að þarna gæti einhvers misskilnings í úttektinni þar sem Miðflokkurinn er frekar skilgreindur sem hægri flokkur og Borgarahreyfingin sem vinstri flokkur. Á milli þeirra er svo Flokkur fólksins sem skilgreindur er frekar til vinstri en hægri.


Í umfjöllun Guardian eru popúlistaflokkar skilgreindir á eftirfarandi hátt:
„Flokkar sem styðja þá hugmyndafræði að samfélagið skiptist í tvo einsleita hópa sem eru andsnúnir hvor öðrum, það er „hreina fólkið“ gegn „spilltu elítunni,“ og færa flokkarnir rök fyrir því að stjórnmál eigi að snúast um almennan vilja fólks (volonté générale).“

Píratar ekki popúlistaflokkur samkvæmt Guardian

Ólafur Þ. Harðarson, stjórnmálafræðingur sem var Guardian innan handar varðandi Íslandshluta úttektarinnar, segir að auk fyrrnefndra flokka hafi Píratar haft popúlískar tilhneigingar, samkvæmt skilgreiningu Guardian. Hann bendir á að mat kjósenda liggi ekki fyrir hendi varðandi hvort einstaka flokkar séu popúlískir, það sé mat rannsóknarmanna.