Þriggja manna nefnd verði skipuð til að taka afstöðu til kæru vigdísar

„Dómsmálaráðuneytð hefur úrskurðað að sýslumaður höfuðborgarsvæðisins skipi þriggja manna nefnd til að taka afstöðu til kæruefnis míns um gildi borgarstjórnarkosninganna í Reykjavík. Jafnframt felldi ráðuneytið úr gildi ákvörðun sýslumanns að vísa kæru minni frá.“

Þetta ritar Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, á Facebook-síðu sína seint í gærkvöldi. Eins og áður hefur verið greint frá telur hún borgarstjórnarkosningarnar ólöglegar og hefur gripið til allra mögulegra leiða til að kæra þær.

Í apríl, þegar Vigdís tilkynnti að hún hefði kært úrskurð sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu um að taka ekki kæru hennar vegna kosninganna til efnismeðferðar eða úrskurðar sagði hún:

„Fallni meirihlutinn á ekki að komast upp með kosningasvindl í afliðnum borgarstjórnarkosningum. Ég hef nú kært úrskurð sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu og tæmi þar með kæruleiðir innanlands. Nú fer kosningakæran í nýtt ferli.“

Nú mun þriggja manna nefnd taka afstöðu til kæru Vigdísar og hefur hún því að heita má unnið áfangasigur í málinu.

Færsla Vigdísar ásamt skjáskoti af úrskurðinum: