Þrautseigja skúla mikilvæg

Jóhannes Kr. Kristjánsson, ritstjóri Reykjavík Media, og Jón Trausti Reynisson, ritstjóri Stundarinnar, eru gestir Sigmundar Ernis í Ritstjórunum í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í kvöld. Þar ræða þeir helstu fréttamál líðandi stundar, þar á meðal stöðu WOW air, uppnám kjaramálanna og síðast en ekki síst tímamótadóm sem féll í hæstarétti fyrir helgi, þar sem lögbann á umfjöllun Stundarinnar og Reykjavík Media sem byggði á gögnum úr þrotabúi Glitnis var endanlega dæmt ólögmætt.

Um stöðu WOW air segir Jóhannes þrautseigju Skúla Mogensen aðdáunarverða, hann gefist ekki upp. „Þetta er búið að vera margra mánaða ferli þar sem er búið að flytja fréttir af því að WOW sé í viðræðum við hina og þessa. Miðað við hvað mikið er undir er pressan gríðarleg. Maður getur rétt ímyndað sér hvernig andrúmsloftið er inni í höfuðstöðvum WOW og öllum þeim stöðum þar sem fundað er þessa dagana.

„Ég ætla ekkert að segja til um hvort honum takist þetta en ég ætla ekki að segja að honum takist þetta ekki, vegna þess að ferill málsins síðustu mánuði hefur verið þannig að maður hefur einhvern veginn búist við því að tilkynning um gjaldþrot komi á nánast hverjum degi,“ bætir Jóhannes við.

Jón Trausti telur þrautseigju Skúla einnig mikilvæga. „Þetta er kannski bara eins og með flug, hann verður bara að halda áfram, hann verður bara að gefa í. Við sjáum að í dag er verið að auglýsa ferðir til London á fimm þúsund kall, á dýrum plássum á Mbl.is. Mér sýnist það bara vera þannig að þú þarft bara að gefa í og halda áfram til að halda flugi. Um leið og hann stoppar þá náttúrulega hrynur allt.“

Aðspurður um hvort hann búist við að WOW lifi af segir Jón Trausti: „Það er kannski erfitt að fara að spá fyrir um það en mér finnst það í sjálfu sér ekki segja mjög mikið að kröfuhafar séu tilbúnir til þess að ganga að þessu [breyta skuldum í hlutafé]. Í rauninni gæti það alveg gilt um það að staða félagsins væri mjög slæm, þannig að þetta væri bara eina forsenda þess að það myndi lifa. Þannig að kröfuhafar geta í rauninni ekki gert neinar kröfur. [Það eru] kannski ekki miklar eignir ef þetta er virði félagsins í áframhaldandi starfsemi.“

Nánar er rætt við Jóhannes og Jón Trausta í Ritstjórunum í 21 í kvöld. Þátturinn hefst klukkan 21:00.