Þorsteinn um símtal sjávarútvegsráðherra: „mér finnst að hann hafi líka átt að hringja í þjóðina og spyrja hvernig henni liði.“

Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætis-, sjávarútvegs-, fjármála- og dómsmálaráðherra, sagði í Silfrinu í dag á RÚV að traust á milli eiganda auðlinda hafsins og þeirra sem nýti þær, sé hrunið. Þá segir hann að rannsókn á málinu eigi eftir að taka mörg ár.
 
„Annars vegar þá eru þarna uppi álitamál sem fara fyrir dómstóla, spurning hvort þetta voru mútur og skattsvik. Það mun taka mörg ár. Hitt lítur að því að byggja upp traust, sem hefur hrunið á milli eigenda auðlindarinnar og þeirra sem hafa nýtingarréttinn.“
 
Þá segir Þorsteinn að hann geti tekið undir þá gagnrýni sem Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegsráðherra, hefur orðið fyrir vegna símtals sem hann átti við Þorstein Má Baldvinsson, fyrrverandi forstjóra Samherja, þar sem hann spurði hvernig Þorsteini liði eftir fréttaumfjöllun Kveiks og Stundarinnar. 
 

„Menn hafa verið að gagnrýna hann fyrir að hafa hringt í vin sinn og spyrja hvernig honum liði. Ég get ekki tekið undir þá gagnrýni. Mér finnst það bara vera eðlilegur drengskapur og íslenskt. Það á ekki að gera það pólitískt tortryggilegt. En mér finnst að hann hafi líka átt að hringja í þjóðina og spyrja hvernig henni liði.“