Þorsteinn: óskiljanlegt að ríkisstjórnin birti ekki gögn

„Aðilar vinnumarkaðarins fullyrða að samningarnir séu ábyrgir og svo vel  innan allra viðmiðunarmarka að í kjölfarið megi lækka vexti. Leikmenn geta hæglega keypt þær fullyrðingar að því gefnu að sá hluti vinnumarkaðarins sem á eftir að semja gangi ekki lengra. En það vekur samt furðu að hvorki verkalýðsfélögin né Samtök atvinnulífsins hafa birt tölfræðileg gögn sem styðja fullyrðinguna. Það hefði þó aukið traust.“

Þetta skrifar Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra og sjávarútvegsráðherra, í nýjasta pistli sínum á Hringbraut um nýsamþykkta kjarasamninga. Í pistlinum furðar hann sig á skortinum á birtingu tölfræðilegra gagna frá öllum þremur aðilum samninganna; launafólki, fyrirtækjum og ríkisstjórninni, sem væru til þess fallin að styðja fullyrðingar þeirra um lækkun vaxta.

Verst þykir Þorsteini að ríkisstjórnin hafi ekki birt útreikninga sína. „En veki þetta tómlæti aðila vinnumarkaðarins furðu er hitt með öllu óskiljanlegt að ríkisstjórnin skuli ekki hafa birt gögn til þess að rökstyðja þá fullyrðingu að hlutdeild hennar í samningunum muni leiða til vaxtalækkunar.  Einkum og sér í lagi stingur þetta í augu þegar litið er til þeirrar gagnrýni sem núverandi og fyrri ríkisstjórnir hafa sætt af hálfu Seðlabankans fyrir þá sök að leggja ekki meira af mörkum með fjárlögum á hverju ári til að stuðla að stöðugleika og lágum vöxtum.“

„Sjálf segir ríkisstjórnin að framlag hennar til að auka einkaneyslu sé um eitthundrað milljarðar króna. Einhver hluti af þeirri upphæð er vegna aðgerða sem ríkisstjórnin var að selja í annað eða þriðja sinn. Á þessu stigi veit enginn hversu mikil hrein viðbót við ríkisútgjöldin er og hversu mikið var verið að endurselja,“ bætir Þorsteinn við.

Hann segir álitaefnið vera þetta: „Hafi aðhaldið í ríkisfjármálum ekki verið nóg fyrir að mati Seðlabankans hvernig geta viðbótarútgjöld ríkissjóðs nú til að auka einkaneyslu stuðlað að lækkun vaxta nema samdrátturinn í atvinnulífinu verði því meiri? Og hvað er samdrátturinn þá talinn verða mikill? Vel má vera að þetta gangi upp. En ríkisstjórnin þarf að sýna fram á það með tölfræðilegum gögnum að svo sé.“

Útreikningarnir hljóti að vera til

„Þessir útreikningar hljóta að vera til. Útilokað er að ríkisstjórnin hafi ákveðið þennan stóra útgjalda pakka eftir margra mánaða undirbúning án þess að hafa það vað fyrir neðan sig.  Það grefur verulega undan trausti á hlut ríkisstjórnarinnar í loforðinu um vaxtalækkun ef hún dregur í marga daga til viðbótar að birta þessa útreikninga á því hvernig ráðstafanir hennar í ríkisfjármálum leiða til lægri vaxta. Hún ber meiri ábyrgð en aðilar vinnumarkaðarins á því að vaxtalækkunin náist,“ skrifar Þorsteinn.

Hann segir spurninguna sem þurfi að svara vera þessa: „Hvernig sýnir ríkisstjórnin  fram á að fjárlögin stuðli að vaxtalækkun? Í spurningu af þessu tagi felst engin hrakspá. Hún er miklu fremur áminning um að menn tryggja ekki eftir á í þessu efni fremur en öðrum. Þess vegna þarf að svara henni.“

„Það skiptir sérstaklega miklu máli að byggja upp traust fyrir þá sök að það getur ráðið miklu um hvort unnt verður að halda þeim kjarasamningum sem eftir eru innan hóflegra marka,“ skrifar Þorsteinn að lokum.