Þórólfur: Erfitt að svara dylgjum og tekur þær nærri sér – Neitar kjaftasögum um Framsóknarflokkinn

Þórólfur: Erfitt að svara dylgjum og tekur þær nærri sér – Neitar kjaftasögum um Framsóknarflokkinn

Þekktasti kaupfélagsstjóri landsins er án efa Þórólfur Gíslason. Hann er nánast þjóðsagnapersóna. Oft sagður maðurinn á bakvið tjöldin þegar kemur að Framsóknarflokknum. Ætli menn sér frama innan þess flokks þurfi þeir blessun kaupfélagsstjórans. Þórólfur stýrir Kaupfélagi Skagfirðinga á Sauðárkróki og hefur gert síðan 1988. Hann hefur af mörgum verið talinn valdamesti maður Íslands. Kaupfélagið hefur unnið með Samherja og á stóran hlut í Morgunblaðinu en það er einmitt í því blaði sem er að finna ítarlegt viðtal við Þórólf í dag. Þar ræðir kaupfélagsstjórinn um reksturinn, RÚV, landbúnað og tengsl hans við Framsóknarflokkinn, svo fátt eitt sé nefnt.

Aftengt sveitinni

Þórólfur segir að þjóðin sé orðin aftengd sveitinni og viðhorf gagnvart landbúnaði orðið skakkt. Merki um það sé að Íslendingar hafi dregist aftur úr í stuðningi við landbúnað og framleiðslu í landinu.

„Meirihluti þjóðarinnar trúir því að Ísland sé eina ríkið sem er að verja sinn landbúnað, á meðan allir eru að gera það. Þá má nefna að stuðningskerfið hér er eitt hið gagnsæjasta sem til er í hinum vestræna heimi.“

Þá segir Þórólfur að Skagfirðingar séu orðnir meiri bændur enn áður.

„Það er mikið land í Skagafirði, og mikill vilji hjá bændum að aukaframleiðsluna. Hér er búið að gera mikið átak í aðlaga búsetuskilyrðin. Það er verið að leggja lokahönd á að tengja sveitirnar við hitaveitu, og þegar því lýkur verða um 95% af dreifbýlinu tengd hitaveitu. Svo er verið að klára ljósleiðaravæðingu einnig. Við eigum í viðræðum við sveitarfélagiðum að ljúka þessu á næstu þremur árum.“

Segir Þórólfur að fleira ungt fólk sé nú að setjast að í sveitinni til að taka upp búskap.

„Við stöndum fast við bakið á bændum, og þeim sem eru að hefja búskap. Við teljum að þetta sé atvinnugrein sem eigi mikla framtíð fyrir sér, og teljum einnig að Skagafjörður henti vel tilmatvælaframleiðslu. Við höfum fulla trú á að það verði jákvæð þróun hér í landbúnaðinum.“

Þá kemur fram í viðtalinu að Kaupfélagið hafi skilað hagnaði upp á fimm milljarða á síðasta ári. Þórólfur heldur fram að ekki séu greiddar arðgreiðskur úr félaginu og það sé ekki á dagskrá. Það stangast á við frétt Stundarinnar þar sem kemur fram að Þórólfur greiddi sér arð upp á 150 milljónir árin 2017 til 2018.

Umræðan hefur áhrif

Ýmsar sögur hafa verið á kreiki um Þórólf. Hann sé maðurinn á bakvið Framsóknarflokkinn. Blessun hans geti orðið til þess að pólitíkusar fái sæti á þingi. Fari pólitíkusar á móti honum geti það orðið til þess að eyðileggja nánast ferilinn eða drauma um frama á því sviði. Er Þórólfur spurður hvort umræða um hans persónu hafi áhrif.

„Ég hef aldrei verið mjög upptekinn af því hver umræðan er um mína persónu. Auðvitað hef ég séð ýmislegt neikvætt í fjölmiðlum í gegnum tíðina og stundum tekið það nærri mér. Það er hins vegar ekki auðvelt að bera hönd fyrir höfuð sér þegar maður verður fyrir svona dylgjum og jafnvel árásum, og ég hef einfaldlega kosið að einbeita mér að daglegum störfum fyrirkaupfélagið frekar en að elta ólar við margt af því sem sagt hefur verið bæði um mig og kaupfélagið.“

Þá er Þórólfur spurður um tengsl hans við Framsóknarflokkinn. Fjölmargar fréttir hafa verið sagðar af slíku. Er ein rifjuð upp á vef DV í dag sem birtist í þeim sama miðli árið 2013. Þá birti DV nærmynd af Gunnari Braga Sveinssyni sem þá var utanríkisráðherra fyrir Framsóknarflokkinn.

Þar sagði um samband Gunnars og Þórólfs:

„Þegar Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra var sveitarstjórnarmaður Framsóknarflokksins í Skagafirði var talað um það í sveitinni að hann tæki enga ákvörðun án þess að ráðfæra sig við Þórólf Gíslason kaupfélagsstjóra KS. „Hann kom alltaf með Nýja-Testamentið frá Þórólfi og það á ekki síður við í dag,“ sagði aðili sem þekkir vel til stjórnmálastarfs í Skagafirði. Þetta var áður en Gunnar Bragi settist á þing árið 2009 og utanríkisráðherrann núverandi var oddviti framsóknarmanna í sveitarstjórninni Skagafirði. Árið 2009 söðlaði Gunnar Bragi um og bauð sig fram til Alþingis sem fyrsti þingmaður Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi. Hin síðari ár hefur þó samband Gunnars Braga við Þórólf og Kaupfélagsmenn súrnað og var ástæðan ekki síst stuðningur Gunnars Braga við viðskiptabann á Rússland sem kom Kaupfélaginu illa.“

Þegar Þórólfur er spurður hvort hann stýri Framsóknarflokknum á bakvið tjöldin svarar hann:

„Nei, það er langt í frá. En ég hef verið flokksbundinn framsóknarmaður og skammast mín ekkert fyrir það. Framsóknarflokkurinn var alltaf flokkur grunnatvinnuveganna, sérstaklega landbúnaðar, og var landsbyggðarflokkur,“ svarar Þórólfur og heldur áfram:

„Mér finnst mikið atriði að halda þeim sjónarmiðum á lofti með skynsömum hætti. En það að ég stjórni Framsóknarflokknum er einhver þjóðsaga sem fór á flug. Ég hef auðvitað mínar skoðanir, og tel að það sé mjög hollt fyrir stjórnmálaflokka að hafa tengsl inn í atvinnulífið. Ég held að það séu voðalega hættulegt ef þeir missa öll tengsl inn í atvinnulífið, þá verða þeir svo aftengdir. Það sem er mikilvægast fyrir íslenska þjóð núna er að nýta auðlindirnar með skynsamlegum hætti.“

Nýjast