Þórlaug: hinir framliðnu björguðu lífi mínu – gekk út af líknardeild eftir að hafa verið úrskurðuð dauðvona – þátturinn sem margir hafa beðið eftir

„Ég spurði lækninn, hvað er hægt að gera. Hann svaraði: „Ekkert. Við erum bara að framlengja lífið þitt.“

„Nú, um hvað mikið?“

Þessa spurningu bar fram tveggja barna móðir í námi og nú hafði loks verið hlustað á hana en það virtist vera of seint. Krabbameinið, sem hún innst inni hafði vitað af allan tímann, var búið að dreifa sér um líkamann en læknarnir töldu sig vita betur.

„Um hálft ár,“ svaraði læknirinn sem oft áður hafði ekki tekið mark á þessari konu.

„Þarna eru börnin mín sjö og níu ára.“

Þetta segir Þórlaug Ágústsdóttir, kraftaverkakona í þættinum Undir yfirborðið. Hún átti samkvæmt læknum sex til tólf vikur eftir ólifaðar. Læknamistök höfðu átt sér stað. Enginn hafði hlustað á hana. Hún skynjaði hroka feðraveldisins ef svo má segja, og þrátt fyrir að hún hafi ítrekað óskað eftir að læknar myndu gera krabbameinsprufu, var henni neitað.

Þátturinn hefur vakið mikla athygli og Hringbraut borist mörg skilaboð um hvar væri hægt að nálgast hann á netinu, til að svara því að þá er þáttinn að finna neðst í þessari umfjöllun og svo má finna hann á NOVA-appinu líkt og marga aðra vinsæla þætti Hringbrautar.

„Ég var tilbúin að prófa allt,“ segir Þórlaug. „Ég var tilbúin að prófa allt og opna á allt.“ Þórlaug bætir við að hún hafi trú á að það sé máttur í bæninni.

Þórlaug var 37 ára, hamingjusamlega gift, tveggja barna móðir, í háskólanámi í Kaupmannahöfn þegar hún greindist með krabbamein. Stuttu síðar var hún fráskilin og dauðvona. Vestræna heilbrigðiskerfið brást hrapalega en hún segir látið fólk, lækna að handan hafa læknað hana af krabbameini.

Hún segir fólk í heilbrigðisgeiranum tala um kraftaverk og enginn geti í raun útskýrt hvernig hún reis upp og gekk út af líknardeild og læknaðist að endanum. Þórlaug telur sig þó vita svarið. Hún leitaði aðstoðar hjá hinum dauðu og trúir því að hún hafi fengið lækningu. Frásögn Þórlaugar er einstök og lærdómsrík en saga hennar varpar líka ljósi á það sem er hulið og jafnvel ekki viðurkennt og samþykkt af heilbrigðisstofnunum og læknum.

Þáttastjórnandinn Ásdís Olsen heimsótti Þórlaugu í eina af hæstu blokkum landsins, í Sólheimunum þar sem hún býr ásamt syni sínum og með útsýni svo langt sem augað eygir. Þórlaug sagði sögu sína í þættinum Undir yfirborðið. Hefur saga Þórlaugar vakið mikla athygli frá því að þátturinn var sýndur í gærkvöldi. 

Þórlaug er stjórnmálafræðingur og hefur starfað lengi í vefgeiranum og hafði fram að veikindum unnið um allan heim við góðan orðstír. Hún var yfirmaður vefmála hjá Össuri og 365 miðlum fyrir hrun, svo dæmi sé tekið. Þá var Þórlaug í Pírötum og bauð sig fram í sveitastjórnarkosningum. Fyrir veikindi hefði mátt segja að Þórlaug væri ofurkona, það er hún auðvitað enn, þá en einnig gangandi kraftaverk sem læknar eiga erfitt með að útskýra.

Þórlaug lýsir líka sárum vanmætti sínum þegar hún hafði misst stöðu sína, hlutverk, maka, styrk og sjálfsvirðingu og finnst enginn taka mark á sér. Tilfinningarnar flæða og tárin streyma. Læknar höfðu samkvæmt Þórlaugu gert hver mistökin á fætur öðrum og áttuðu sig skyndilega á að hún væri dauðvona og ætti um sex til tólf vikur eftir ólifaðar. Á sama tíma gekk þessi kraftaverkakona í gegnum skilnað. Í þættinum segir Þórlaug gráti næst:

„Ég er sorgmædd og ég er reið vegna þess hvernig þeir fóru með mig. [...] Þú hafðir rétt fyrir þér. Ég hef aldrei séð skömmustulegri mann. Hann vissi að hann væri búinn að drepa mig. Hann vissi að líkurnar mínar væru nánast engar.“

En þá átti sér stað kraftaverk. Hún fór óhefðbundna leið til að ná bata sem átti ekki að vera mögulegt. Einnig trúir Þórlaug að plasíbó líkt og það er kallað, sýni í raun mátt hugans. Um tíma taldi Þórlaug að hún hefði tapað baráttunni og væri að fara að deyja. Í þættinum segir Þórlaug um kraftaverkið:

„Ég fékk til mín heilara sem hét nafni sem hafði komið svo sterkt til mín áður, oft á kvöldin þegar ég var að hugleiða, komu tvo skrítin nöfn til mín í huga á mér. Ég skildi það ekki,“ segir Þórlaug og bætir við að þegar hún svo hitti heilarann, konu, kom í ljós að hún hét nafninu sem svo löngu áður hafði birst henni í hugleiðslu.

Þáttastjórnandinn Ásdís Ólsen spyr:

Hvert var nafnið?

„Helene,“ svarar Þórlaug. „Helene færði mér kraft. Við töluðum saman við danska og íslenska læknamiðla.“

Þórlaug trúir því, þó hún geri sér vitanlega grein fyrir að margir taki frásögninni með fyrirvara, að hinir framliðnu hafi læknað hana í gegnum konuna, Helene.

Ásdís Ólsen: Hvaða kraftaverk ertu að tala um?

„Það er svo erfitt að setja fingurinn á það,“ svarar Þórlaug: „Ég veit að þau færðu mér mikinn kraft. En veistu, núna þegar ég tala við þig, þá fæ ég tilfinningu hérna í brjóstið, ég er að fá styrk við það að tala um þetta, að tala um þau, þá fæ ég styrk. Þetta hljómar eins og geðveiki,“ segir Þórlaug og brosir.  

Þórlaug var í líknandi meðferð, nánast búið að úrskurða hana dauðvona. Þegar hún er beðin um að útskýra hlutverk Helene nánar svarar hún:

„Hún er að leggja yfir hendur og ég finn hitann í höndunum á henni og ég finn kraftinn sem streymir inn í mig og við erum að tala við hina framliðnu. Þegar hún er ekki með mér er ég að hugleiða og ég er að tala við hina framliðnu. Og ég er með fólk hérna heima sem er að tala við hina framliðnu líka. Helena kom alltaf til mín af og til og færði mér styrk, eins og maður borðar mat. Hún fyllti á batteríið mitt. Síðan fer ég inn á líknardeild og þar tala ég við lifandi lækna. Á nóttunni tala ég við dána lækna. Síðan er ég þarna í líknandi meðferð en held áfram að taka hin lyfin og borða þennan holla mat og tók allan sykur út úr fæðunni. Ég ætlaði ekki að deyja og að börnin mín vissu að ég hefði ekki barist til hins síðasta.“

Þórlaug heldur áfram: „Síðan er ég skönnuð og þá finna þeir ekki krabbamein. Það er enginn krabbi sjáanlegur í myndatökunni!“

Aftur er tekin mynd nokkru síðar.

Krabbameinið er farið.

Þeir finna það ekki lengur.

Talað er um kraftaverk.

Í dag nýtur þessi kraftaverkakona lífsins og lífsfyllingin er mun meiri en áður þegar hún var aftengd í lífsgæðakapphlaupinu sem svo margir eru fastir í. Saga Þórlaugar er mikilvæg og dýrmæt og ætti enginn að láta viðtalið sem sýnt er í kvöld á Sjónvarpsstöðinni Hringbraut fram hjá sér fara.