Þórir sæm afhjúpaður: sigldi undir fölsku flaggi

Þórir Sæmundsson leikari er eigandi Twitter-aðgangs sem ber heitið „Boring Gylfi Sig“. Er hann skreyttur með myndum af knattspyrnumanninum Gylfa Þór Sigurðssyni. Þórir hefur átt þennan aðgang í nokkur ár og hefur Þórir þá birt umdeildar færslur í skjóli nafnleyndar. Fréttablaðið greindi frá.

Í dag komst upp um Þóri sem gekkst við því að hafa stofnað Twitteraðganginn.

„Jæja það hlaut að koma að því. Hæ ég er boring Þórir Sæm,“

sagði leikarinn á Twitter.

Á vef Fréttablaðsins segir að Þórir hafi haft uppi athugasemdir um kvenfólk, einkum ungar konur, sem þótt hafa verið óviðeigandi, bæði á sínum persónulega aðgangi undir sínu nafni, og á nafnlausa aðganginum sem um ræðir.

Þórir var árið 2017 vikið frá störfum í Þjóðleikhúsinu. Sendi Þórir kynferðislegar myndir af sér til samstarfskonu sinnar á menntaskólaaldri. Áður hafði borist nafnlaus ábending þess efnis að Þórir hefði sent fimmtán ára stúlku sambærilegar myndir. Þórir viðurkenndi í samtali við DV árið 2017 að hann hefði sent myndir af getnaðarlimi sínum. Þá kvaðst hann hafa gerst sekur um ósæmilega hegðun og áreiti.