Þórhildur sunna talin brjóta siðareglur: „verið að festa í sessi að traust á stjórnmálum er enn við frostmark“

Siðanefnd Alþingis telur að Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata, hafi brotið í bága við ákvæði siðareglna þingsins með ummælum um Ásmund Friðriksson, þingmann Sjálfstæðisflokksins, og endurgreiðslur sem hann þáði frá Alþingi vegna skráninga á akstri eigin bifreiðar. Siðanefnd skilaði ráðgefandi áliti til forsætisnefndar þingsins, þar sem þetta kemur fram. Fréttablaðið greinir frá.

„Miðað við allt sem á undan er gengið ætti kannski ekki að koma mér á óvart að ég skuli vera fyrsti þingmaður Íslands til að teljast hafa brotið siðareglur þingsins. Jafnvel þótt sakir mínar felist í því að óska eftir auknu gegnsæi um fríðindi þingmanna og kalla eftir rannsókn á því sem öllum sem kynntu sér málið hlaut að vera ljóst. Að eitthvað væri bogið við endurgreiðslurnar,“ segir Þórhildur Sunna í samtali við Fréttablaðið um álit siðanefndarinnar.

Ásmundur kvartaði til forsætisnefndar Alþingis vegna ummæla Þórhildar Sunnu og Björns Leví Gunnarssonar, þingmanns Pírata, en siðanefndin taldi Björn Leví þó ekki brotlegan við reglurnar. Björn Leví Gunnarsson sagði meðal annars að um fjársvik væri að ræða hjá Ásmundi og óskaði eftir að forsætisnefnd rannsakaði allan aksturskostnað þingmanna, og þá aksturskostnað Ásmundar sérstaklega.

Ummæli Þórhildar Sunnu sem álit siðanefndarinnar vísar til féllu meðal annars í Silfrinu á RÚV sunnudaginn 25. febrúar 2018. Þar kvartaði hún undan því að hvorki ráðherrar né þingmenn væru látnir sæta ábyrgð. „Nú er uppi rökstuddur grunur um það að Ásmundur Friðriksson hafi dregið að sér fé, almannafé, og við erum ekki að sjá viðbrögð þess efnis að það sé verið að setja á fót rannsókn á þessum efnum,“ sagði hún í þættinum.

Þórhildur Sunna telur það kaldhæðnislegt að siðanefndin telji hana hafa brotið gegn ákvæði um að alþingismenn skuli rækja starf sitt af ábyrgð, heilindum og heiðarleika. „Ég taldi mig einmitt vera að rækja þessar skyldur með því að kalla eftir rannsókn á þessum endurgreiðslum og er kannski mest hissa á að slík rannsókn hafi ekki enn átt sér stað. En með þessari túlkun nefndarinnar á siðareglunum er í rauninni verið að festa í sessi það samtryggingarkerfi stjórnmálamanna sem á stóran þátt í því að traust á stjórnmálum er enn við frostmark,“ segir hún við Fréttablaðið.

Hún hefur af því áhyggjur að siðareglurnar séu notaðar til að þagga niður í þingmönnum. „Ákveði forsætisnefnd að gera álit siðanefndar að sínu hefði það verulega vond áhrif fyrir tjáningarfrelsi þingmanna. Þegar það er orðið alvarlegra að kalla eftir rannsókn á meintri sjálftöku en taka þátt í henni, þá er nú fokið í flest skjól,“ segir Þórhildur Sunna.

Telur niðurstöðuna orka tvímælis

Siðanefndin telur að Þórhildur Sunna hafi gerst brotleg við ákvæði 1 og c liðar 5. gr. siðareglnanna, sem kveða á um að alþingismenn skuli sem þjóðkjörnir fulltrúar rækja störf sín af ábyrgð, heilindum og heiðarleika og ekki kasta rýrð á Alþingi eða skaða ímynd þess með framkomu sinni. Einnig að hún hafi gerst brotleg við 7. gr. sem segir að þingmenn skuli í öllu hátterni sínu sýna Alþingi, stöðu þess og störfum virðingu.

„Það er mat siðanefndar að órökstuddar aðdróttanir af hálfu þingmanna um refsiverða háttsemi annarra þingmanna sé til þess fallið að kasta rýrð á Alþingi og skaða ímynd þess. Slíkt hefur óneitanlega neikvæð áhrif á traust almennings til Alþingis,“ segir í niðurstöðu nefndarinnar.

Þórhildur Sunna segir þetta undarlega niðurstöðu þar sem henni þykir það orka tvímælis að um órökstudda aðdróttun sé að ræða ef nefndin kannar ekki sannleiksgildi orðanna. Hún segist munu óska eftir því við forsætisnefnd að málið fái endurskoðun hjá siðanefndinni á grundvelli greinargerðar sem hún áætlar að senda forsætisnefnd.

 „Ég mun senda inn greinargerð til forsætisnefndar og andmæla því sérstaklega að þetta hafi ekkert með sannleiksgildi orða minna að gera. Ég mun fara fram á að forsætisnefnd vísi málinu aftur til siðanefndar til frekari meðferðar með vísan til greinargerðar minnar,“ segir hún. Í athugasemd til siðanefndar vegna umfjöllunar nefndarinnar um málið benda hún og Björn Leví á vítaleysi sannra ummæla og segja að ekki sé unnt að ákveða hvort ummælin séu brot á siðareglum nema ganga úr skugga um hvort þau séu sönn eða ósönn.