Þórhallur fékk tæpar 327 þúsund krónur greiddar fyrir hvern fund sem formaður lindarhvols ehf

Lindarhvoll ehf. var stofnað 15. apríl 2016 en lauk starfsemi þann 7. febrúar 2018. Ríkisendurskoðandi er með rekstur fyrirtækisins til rannsóknar.

Félagið sem stofnað var af fjármálaráðuneytinu í tíð Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins starfaði í 663 daga og af þeim voru 457 vinnudagar. Það gera 21 mánuð og þrjár vikur og kostaði starfsemi Lindarhvols ríkissjóð 323.665 krónur á dag samkvæmt frétt Vísis um málið.

Þórhallur Arason skrifstofustjóri Fjármálaráðuneytisins fékk tæpar 327 þúsund krónur greiddar fyrir hvern fund á meðan hann starfaði sem formaður í stjórn Lindarhvols ehf.

\"\"

Þórhallur Arason 

Félaginu bar að selja eignir sem ríkið fékk í fangið eftir nauðungarsamninga við föllnu bankana seint á árinu 2015 en veruleg óánægja var vegna þess hversu ógagnsætt ferlið virtist vera.

Árið 2016 voru haldnir 16 stjórnarfundir í Lindarhvoli og voru stjórnunarlaun fyrir það ár rúmar 12 milljónir króna að frádregnum launatengdum gjöldum.

Ásamt Þórhalli Arasyni formanni Lindarhvols voru þau Ása Ólafsdóttir og Haukur C. Benediktsson í stjórn fyrirtækisins en samhliða stjórnunarstörfum sinntu þau einnig fullu starfi hjá hinu opinbera.