Þórður hyggst afhjúpa meintan huldumann

Kaupþing var ekki banki í hefðbundum skilningi, heldur ein stór svikamylla sem stundaði blekkingar til að lítill hópur gæti grætt sem mest. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri bók Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, Kaupthinking – Bankinn sem átti sig sjálfur, sem kemur út á næstunni. Þórður ræddi um bókina við Egil Helgason í Silfrinu í gær, sagði hann að í bókinni yrði afhjúpað hver er hugsanlega huldumaðurinn sem var á bak við aflandsfélagið Dekhill Advisors.

Þórður Snær hefur safnað gögnum sem eru notuð við gerð bókarinnar í tæplega áratug, allt frá hruni. Á þessum tíma hefur hann farið yfir 40 þúsund skjöl og tekið viðtöl við hundruð manns. Á þessu ári fékk hann svo rannsóknar gögn í hendurnar sem gerðu honum kleift að klára bókina, þar á meðal yfirheyrslur yfir fjárfestum á borð við Kevin Stanford og Sheik Al-Thani, einnig hafði hann aðgang að greinargerðum rannsakenda. Segir á bókarkápunni að um sé að ræða sögu „um ofmetnað og græðgi, stórfelldar blekkingar og svik, samtryggingu og samsæri“.