Þórdís Kolbrún tekur við sem dómsmálaráðherra

Þórdís Kolbrún tekur við sem dómsmálaráðherra

Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, tek­ur við sem dómsmálaráðherra í kjölfar þess að Sigríður Á. Andersen steig til hliðar úr embættinu í gær. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra greindi frá þessu að loknum þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins rétt í þessu. Um tímabundna ráðstöfun er að ræða. Mbl.is greinir frá.

Bjarni segir að Þórdís Kolbrún muni sinna verkefnum dómsmála samhliða störfum sínum sem ferðamála-, iðnaðar- nýsköpunarráðherra. Bjarni benti á að Þórdís Kolbrún þekkti málaflokkinn vel, enda væri hún lög­fræðing­ur að mennt og var áður aðstoðarmaður Ólafar Nordal heitinnar inn­an­rík­is­ráðherra, þegar dóms­mál­in tilheyrðu innanríkisráðuneytinu.

Sigríður sagði af sér í kjölfar úrskurðar Mannréttindadómstóls Evrópu á mánudaginn um að skipan á fjórum dómurum í Landsrétt hafi brotið gegn 6. grein mannréttindasáttmála Evrópu. Sagði Sigríður meðal annars að hún hafi tekið þessa ákvörðun þar sem hún teldi að á meðan Landsréttarmálinu vindi fram væri æskilegt að annar en hún verði í forsvari, enda væri henni annt um að ekki sé grafið undan trúverðugleika íslenskra dómstóla.

Nýjast