Þórdís kolbrún er millilending

Björgvin G. Sigurðsson ritstjóri Suðra og Karl Garðarsson framkvæmdastjóri DV eru gestir Lindu Blöndal í Ritstjórunum í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í kvöld. Þar ræða þeir m.a. Landsréttarmálið og afsögn Sigríðar Á. Andersen úr embætti dómsmálaráðherra vegna þess.

Karl telur litlar líkur á að dómi Mannréttindadómstóls Evrópu vegna málsins verði áfrýjað til yfirréttar. „Þegar kemur að því að áfrýja málinu innan dómstólsins þá eru fullt af spurningum. Í fyrsta lagi, er þetta mál sem á að áfrýja yfirleitt? Í öðru lagi, hverju á það að skila fyrir okkur? Hvað tekur þetta langan tíma? Því þetta áfrýjunardæmi þarna hjá MDE, það getur tekið eitt til tvö ár. Hvað ætlum við að gera á meðan?“

Björgvin tekur í sama streng. „Ég held að ríkisstjórnin sé að taka þá skynsömu ákvörðun, örugglega eftir að hafa hlustað á ráð ýmissa sérfræðinga síðustu daga, að áfrýja þessu ekki. Í fyrsta lagi er ómögulegt að segja hvenær það ferli endar og hvað kemur út úr því. Í öðru lagi þá er uppnámið nóg fyrir, þetta nýja millidómstig er í uppnámi, það er einhvern veginn alls ekki búið að lenda því hvernig á að komast út úr þessu með þessa fjóra dómara og að „testa“ það í þeirri krísu í tvö ár í viðbót er eiginlega óhugsandi.“

Velta fyrir sér hvað leiddi til afsagnar

Karl segir það athyglisvert að Sigríður hafi ekki ætlað að segja af sér daginn sem MDE tilkynnti úrskurð sinn en hafi síðan snarlega skipt um skoðun daginn eftir. „Mín persónulega skoðun er sú að Vinstri grænir hafi sagt bara þvert nei, „þetta gengur ekki lengur, þið verðið að taka á þessu.“ Mín reynsla af Sjálfstæðisflokknum er sú að þeir standa mjög þétt um sína ráðherra og sitt fólk. Ég á mjög bágt með að trúa því að hún hafi tekið þessa ákvörðun sjálf.“

Björgvin segir þetta sannarlega einn möguleika, að Vinstri grænir hafi stillt þessu upp þannig að um stjórnarslitamál væri að ræða. Hinn möguleikinn væri sá að Sigríður og hennar stuðningsfólk hafi séð fyrir sér hvers konar dagar og vikur væru framundan með endalausum átakaflötum og heilu dómstigi í uppnámi, og hún hafi því einfaldlega kosið að stíga til hliðar þar sem það væri besta lausnin fyrir alla sem hlut eiga að máli.

Karl og Björgvin eru sammála því að ef Vinstri græn hafa krafist afsagnar Sigríðar séu góðar líkur á að eftir liggi nokkuð sviðin jörð í samstarfi ríkisstjórnarflokkanna. Þeir benda í því samhengi á að Vinstri græn hafi tekið ýmislegt á sig á undan með það fyrir augum að halda frið og að ríkisstjórnin sitji allt kjörtímabilið.

„Það hefði verið heppilegt og kannski nauðsynlegt vegna Sigríðar, hennar áframhaldandi þátttöku í stjórnmálunum, og svo samstarfsins vegna milli þessara þriggja flokka, að þau greini frá því sem gekk á og varð til þess að hún ákvað að segja af sér,“ segir Björgvin.

Telja skipunina tímabundna

Björgvin og Karl telja skipunina á Þórdísi Kolbrúnu vera tímabundna. Aðspurður um hvort verið sé að halda dyrunum opnum fyrir Sigríði segir Karl: „Ekki endilega fyrir Sigríði. Ég held að Bjarni sé að kaupa sér tíma og hann hefur í rauninni gefið það sterklega í skyn að þau séu að taka sér tíma vegna þess að það eru önnur nöfn sem koma til greina heldur en Þórdís, sem hefur nóg á sinni könnu. Þannig að ég held að þetta sé fyrst og fremst milliskref til þess að fá smá tíma til þess að hugsa málið betur og hvernig best er að stilla þessu upp.“

„Ég tek undir það, þetta er náttúrulega bara millilending í nokkrar vikur, bráðabirgðaniðurstaða,“ segir Björgvin, sem telur það þó ekki óhugsandi að Sjálfstæðisflokkurinn leggi það aftur til að Sigríður verði dómsmálaráðherra.

Karl og Björgvin ræða þetta mál nánar í Ritstjórunum í 21 í kvöld, auk stöðu hælisleitenda og mótmæla þeirra, yfirstandandi kjaraviðræður og væntanleg verkföll. Þátturinn hefst klukkan 21:00.