Þórdís elva: „ég bið fyrir bata þínum og vona að sá sem gerði þér þetta verði látinn svara til saka“

„Elsku kona sem var hrint fram af svölum í gærkvöldi, ég veit ekki hver þú ert, en ég er með þig á sérstökum stað í hjarta mínu, í kærleiksgjörgæslu.“

Þetta segir Þórdís Elva Þorvaldsdóttir rithöfundur og fyrirlesari í færslu á Facebook, vegna þeirra hörmulegu tíðinda að konu var hrint fram af svölum í Hólahverfi í Breiðholti í gærkvöldi. Hún hefur boðað til mótmæla fyrir framan skrifstofu Héraðssaksóknara á Skúlagötu 17 á morgun gegn niður­fellingu nauðgunarmála sem og til að vekja at­hygli á of­beldi sem konur eru beittar. Þórdís Elva skrifar:

„Ég bið fyrir bata þínum og vona að sá sem gerði þér þetta verði látinn svara til saka. Elsku aðstandendur, ég sendi ykkur ljós og styrk. Þið hin sem eruð í áfalli yfir að þetta hafi átt sér stað, það er kominn tími til að horfast í augu við að konur eru beittar ofbeldi í svo miklum mæli að það er ótrúlegt að þær skuli ekki vera löngu búnar að grípa til örþrifaráða, stofna til óeirða og lama samfélagið svo það VAKNI TIL FOKKING VITUNDAR. F-J-Ö-R-U-T-Í-U-O-G-T-V-Ö prósent af íslenskum konum eru beittar líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi á lífsleiðinni. Næstum önnur hver kona. Önnur hver frænka þín, önnur hver skólasystir, önnur hver vinkona, önnur hver samstarfskona.

Hlutfallið er jafnvel hærra meðal kvenna sem glíma við fíkn eða eru af erlendum uppruna, til að mynda. Ein versta birtingarmynd ofbeldis gegn konum, nauðgun, er nánast refsilaus. Einungis brotabrot þolenda kæra mál sín, líklega því þær vita að það eru yfirgnæfandi líkur á að það verði fellt niður. Þetta er ekki hægt. Við VERÐUM AÐ GERA BETUR.

Ég vildi að ég hefði getað gripið systur okkar sem var hrint af svölunum í gær. Ég gat það ekki, en ég get hafið upp raust mína hér. Og þau ykkar sem eruð í Reykjavík getið mótmælt á morgun fyrir hönd þeirra hugrökku þolenda sem kærðu nauðgun, en fengu aldrei að fara fyrir dóm. Hættum að TALA og förum að GERA. Við höfum ekki efni á að líta undan, lengur. Fórnarkostnaðurinn er alltof hár.“