Þolir lýðræðið ekki frjálsa fjölmiðlun?

Eitt meginverkefni fjölmiðla er að afla sér gagna sem sýna samfélagið í réttu ljósi - og svipta burtu hulu leyndar og laumuspils þar sem spillingin þrífst einna best. Megnið af þessum gögnum á ekki erindi við fólkið í landinu, eins og fréttamenn þekkja, enda varðar efnið þá ekki almannahag eða felur í sér fréttagildi. Og þar kemur að því að þegja yfir því sjálfsagða.

Þjóð sem þarf að þegja yfir því ósjálfsagða er hins vegar á villigötum. Stjórnvöld sem telja það öðru fremur mikilvægt að leyna upplýsingum fremur en að birta þær eru ekki að þjóna almenningi. Stjórnsýsla af því tagi treystir ekki fjölmiðlum fyrir mikilvægasta verkefni þeirra; að leggja mat á fréttagildi upplýsinga sem komið hefur verið til þeirra, að gefnu tilefni. 

Og svo vitnað sé í æðstu lög: \"Tjáningarfrelsi má aðeins setja skorður með lögum í þágu allsherjarreglu eða öryggis ríkisins, til verndar heilsu eða siðgæði manna eða vegna réttinda eða mannorðs annarra, enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum.\" Og stóra spurningin er þá þessi: Á frjáls fjölmiðlun ekki lengur heima í lýðræðisríkinu?