Þjóð­leik­hús­ráð segir af sér í heild sinni

Allir fulltrúar í þjóðleikhúsráði hafa sagt sig úr ráðinu, í ljósi þess að staða þjóðleikhússtjóra sé laus til umsóknar. Ákvörðunin var tekin svo að það sé „hafið yfir allan vafa um mögulegt vanhæfi einstakra fulltrúa í ráðinu“, eins og segir ítilkynningu á vef mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Fréttablaðið greinir frá.

Fréttablaðið greindi frá því í síðasta mánuði að töluverð ólga væri innan Þjóðleikhússins vegna hegðunar Ara Matthíassonar þjóðleikhússtjóra. Kvartanir höfðu borist þjóðleikhúsráði og mennta- og menningarmálaráðherra frá stjórn Félags íslenskra leikara (FÍL). Voru þær misalvarlegar, en lutu meðal annars að samningsbrotum, hegðun og erfiðum samskiptum og spönnuðu nokkurra ára tímabil.

Að sögn hefur verið þungt yfir Þjóðleikhúsinu í nokkurn tíma, en Fréttablaðið greindi frá því í mars á síðasta ári að eftir að samningar náðust að kjaraviðræðum FÍL og Þjóðleikhússins hafi Ari hrint formanni FÍL, Birnu Hafstein, og að hún hafi hrasað til jarðar sökum þess. Birna hafi ætlað að faðma Ara að viðræðum loknum en að hann hafi þá stjakað við henni.

Ítarlega er fjallað um málið í Fréttablaðinu sem má lesa í heild sinni hér.