Þingnefnd: Ekkert leynimakk við Rússa

Trump fagnar niðurstöðu meirihluta leyniþjónustunefndarinnar

Þingnefnd: Ekkert leynimakk við Rússa

Leyniþjónustunefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings hefur komist að niðurstöðu í rannsókn sinni á afskiptum Rússa af forsetakosningunum 2016, sem staðið hefur yfir í ár. Samkvæmt meirihlutaáliti Repúblíkana í nefndinni fundust engin merki um leynimakk kosningateymis Trumps og Rússa fyrir kosningarnar.

Meirihlutinn birti í gærkvöldi yfirlit um helstu niðurstöður rannsóknarinnar. Þar segir að þó nefndin véfengi ekki þá niðurstöðu bandarískra leyniþjónustustofnana að Rússar hafi reynt að hafa óeðlileg afskipti af kosningunum þá taki hún ekki undir það að Rússar hafi sérstaklega unnið að kjöri Trumps. Samkvæmt áliti meirihlutans er í mesta lagi hægt að segja að kosningastjórn Trums hafi „hugsanlega sýnt slæma dómgreind" í þessum málum og jafnframt fullyrt að Rússar hafi aftur á móti komið neikvæðum upplýsingum um Trump til kosningateymis Clintons.

Meirihluti leyniþjónustunefndarinnar lagðist gegn því að birta gagnálit minnihluta demókrata í nefndinni í niðurstöðunum. Demókratar munu skila séráliti sem búist er við að sé í andstöðu við álit repúblíkana í öllum meginatriðum.

Donald Trump fagnaði meirihlutaniðurstöðunni á Twitter með því að tísta í hástöfum: „ENGAR SANNANIR UM LEYNIMAKK.“ Oddviti Demókrata í leyniþjónustunefndinni, Adam Schiff, segir repúplíkana hafi sett hagsmuni forsetans ofar þjóðaröryggi og sagan eigi eftir að dæma þá hart. 

Meginrannsóknin í málinu á vegum Roberts Mueller, sérstaks saksóknara, heldur áfram. Sú rannsókn hefur leitt af sér fjölda ákæra, sem ekki sér fyrir enda á. Jafnframt er enn í gangi rannsókn leyniþjónustunefndar öldungadeildar þingsins á þessum málum.

Nýjast