Þingið greiði ekki reglubrjótunum

Þingið ætti að neita að greiða þeim þingmönnum fyrir akstur sem fara ekki að reglum um notkun bílaleigubíla segir þingmaður Samfylkingarinnar. Þingmaður Viðreisnar segir að ef þingmenn séu ósáttir við reglurnar eigi þeir að reyna að breyta þeim frekar en að hunsa þær.
 
Þetta kom fram í Silfrinu í morgun þar sem skipst var á skoðunum um akstursgreiðslur þingmanna sem mjög hafa verið til umræðu upp á síðkastið.
 
Samkvæmt reglum Alþingis eiga þingmenn að nota bílaleigubíl ef þeir keyra meira en fimmtán þúsund kílómetra á ári. Ekki hafa þó allir þingmenn fellt sig undir þetta: \"Ef maður ætlar sér að passa sig, að vera innan þeirra reglna sem okkur eru settar þá er það mjög einfalt,“ sagði Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar: \"Ef maður er ósáttur við þessar reglur og hefur réttmæta gagnrýni þá vinnur maður í því að breyta reglunum. Maður segir ekki bara: Ég ætla ekki að fara eftir þeim.“

 

Oddný G. Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, tók undir þetta með Hönnu Katrínu: \"Það er líka mjög skrýtið að þingmenn séu í þeirri aðstöðu að segja: Ég ætla ekki að fara eftir reglunum. Auðvitað á þingið að segja: Það eru hérna reglur, þú ert ekki að fara eftir þeim og við ætlum ekki að borga þennan kostnað.“