Þingfundi frestað eftir rúmar 19 klukkustundir af málþófi Miðflokksmanna

Þingfundi frestað eftir rúmar 19 klukkustundir af málþófi Miðflokksmanna

Frá því í gærnótt eftir að þingfundi var slitið
Frá því í gærnótt eftir að þingfundi var slitið

Klukkan 8:40 í morgun var þingfundi frestað á Alþingi, rúmum 19 klukkustundum eftir að hann hófst um klukkan 13:30 í gær. Líkt og daginn áður fóru þingmenn Miðflokksins mikinn í málþófi sínu um þriðja orkupakkann. Síðari umræðu um orkupakkann er ekki enn lokið og enn eru sex þingmenn Miðflokksins á mælendaskrá þegar þingfundur hefst að nýju. RÚV.is greinir frá.

Þingfundi var frestað í morgun af nauðsyn að beiðni Steingríms J. Sigfússonar, forseta Alþingis, þar sem nefndarfundir á nefndarsviði Alþingis áttu að hefjast klukkan níu. Þingfundur mun hefjast að nýju klukkan 15:00 í dag og má búast við því að þingmenn Miðflokksins haldi málþófi sínu um þriðja orkupakkann ótrauðir áfram.

Þegar klukkan fór að nálgast níu í morgun fann Steingrímur sig knúinn til þess að biðja Birgi Þórarinsson, þingmann Miðflokksins, að fresta þrettándu ræðu sinni um málið. „Háttar svo til að klukkan nálgast óðfluga níu en þá hefjast fundir í þingnefndum þannig að forseti verður að biðja háttvirtan þriðja þingmann Suðurkjördæmis, Birgi Þórarinsson, afsökunar á því að forseti fer fram á að hann fresti því að flytja sína þrettándu ræðu þar sem við verðum nú að gera hlé á fundi svo ekki skarist nefndarfundir og þingfundir,“ sagði Steingrímur.

Nýjast