Þingflokkurinn var í áfalli

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingkona Framsóknarflokksins, segir að þingflokkur Framsóknarflokksins hafi orðið fyrir miklu áfalli þegar Kastjlós sýndi viðtalið við Sigmund Davíð Gunnlaugsson þáverandi forsætisráðherra, um Wintrismálið.

Ferð Sigmundar Davíðs til Bessastaða hafi verið annað áfall. Þegar þingflokkurinn kom næst saman eftir þessa atburði hafi þingmennirnir verið í áfalli. Silja Dögg segir að sumir hafi grátið. Þau höfðu orðið vitni að framgöngu Sigmundar Davíðs, sem fram að þeim tíma var ótvíræður foringi hópsins, sem ljóst var að væri öllum erfið.

Þingflokkurinn var sammála um að best væri að halda stjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn áfram. Hvorki Sigmundur Davíð né Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður og varaformaður flokksins, voru á fundinum þegar þessi vilji kom fram. Þingmennirnir vildu að Sigurður Ingi yrði forsætisráðherra. Þegar hann kom á fundi og var sagt hver vilji þingmannanna var, var honum brugðið að sögn Silju.

Sigurður Ingi óskaði eftir að fá að eiga tveggja manna fund með Sigmundi Davíð til að segja honum frá vilja þingflokksins.

Silja Dögg er í ítarlegu viðtali í Þjóðbraut í kvöld.