„þetta var misheppnað“

Guðmundur Andri Thorsson þingmaður Samfylkingarinnar og Kristinn Hrafnsson blaðamaður mæta í kvöld í þáttinn 21 og ræða kostnaðinn við hátíðarfund Alþingis á Þingvöllum í júlí í tilefni 100 ára fullveldisafmælis Íslands sem fór rúmlega 40 milljónir fram úr upphaflegri áætlun og kostaði samtals um 87 milljónir. Kostnaðurinn er sundurgreindur á vef Alþingis en þar kemur fram að lýsingin ein og sér hafi kostað rúmar 22 milljónir. Atburðurinn var haldinn úti um hábjartan dag.

Þeir ræða viðburðinn sjálfan nú í ljós þess að frammúrkeyrslan í kostnaði er mikil og það bætist því við það sem þótti ekkert sérlega vel heppnuð viðhöfn.

Guðmundur Andri lýsir sérkennilegu lífsreynslu sinni þar sem þingmenn fengu á sig blæ elítunnar þar sem þeim var ekið með viðhöfn á Alþingi og segir hann það hafa verið vond tilfinning. Hann hefur sagt að viðhöfnin hafi gert álíka mikið fyrir ásýnd og virðingu Alþingis og Kjararáð hefur áður gert.

„Þetta var misheppnað“, segir Guðmundur Andri um hvort viðhöfnin hafi floppað. Hann tekur þó fram að þetta hafi auðvitað verið skipulagt með góðum hug. Kristinn telur að þetta hafi ekki verið nein hátíð fyrir almenning og ekki heldur á árum áður eða árið 1918 þegar fullveldi fékkst. Alþýða manna hafi ekkert verið með í athöfnum sem þessum. Árið 1918 var til dæmis Kötlugos og spænska veikin fór um landið.  Gjáin á milli þings og þjóðar sé mikil og á þessum flekamótum breikkar hún bara, segir Kristinn um hátíðsdaginn á Þingvöllum í sumar.

Kristinn skrifar grein  í Kvennablaðið undir yfirskriftinni „Fáveldisfagnaðurinn“ sem hefst á þessum orðum: „Það hefur einhver reginmisskilngur vaðið uppi um hið svokallaða fullveldi. Fullveldi kemur þjóðum ekkert við, altso alþýðu manna“.