„þetta eru ekki þjóðarsáttarsamningar“

Svavar Gestsson og Sighvatur Björgvinsson, fyrrverandi ritstjórar og ráðherrar, voru gestir Sigmundar Ernis í Ritstjórunum í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í kvöld. Þar ræddu þeir helstu fréttamál líðandi stundar, þar á meðal þriðja orkupakkann og nýgerða kjarasamninga.

Um kjarasamningana segir Svavar: „Það er verið að leggja þarna línur um ýmsa hluti, varðandi t.d. krónutöluhækkun, hækka þá neðstu mest, það er gengið lengra í því en nokkru sinni fyrr. Síðan eru þarna ýmsir hlutir í þessu eins og t.d. skattabreytingar og fleira, og þegar allt er tekið saman sem stjórnvöld eru að gera þá eru það um 10-20 milljarðar held ég sem verið er að leggja inn í þetta á ársgrundvelli. Það er í raun og veru verið að treysta rammann. Hefur þetta ekki gengið áður, að ná saman um þetta? Jú, það hefur gert það. Það gerði það t.d. að einhverju leyti í þjóðarsáttarsamningunum 1990. Vandinn við þá var sá að við vorum áður, fjármálaráðuneytið og við, við vorum áður búnir að semja við BHMR um miklu meiri kauphækkanir en samrýmdust þjóðarsáttarsamningunum. Þess vegna neyddumst við til þess, urðum við að setja lög um kjör BHMR eftir að þjóðarsáttarsamningarnir voru gerðir, þannig að það var flókið.“

Sighvatur segir: „Það sem er mjög athyglisvert í þessu ferli er að tvö félög, sem eru mjög ólík að uppbyggingu, Efling annars vegar og VR hins vegar, skuli ná saman, vegna þess að Efling er fyrst og fremst stéttarfélag verkafólks, láglaunafólks. VR er hins vegar félag sem er með talsverðan hóp vel efnaðs fólks og sem er á háum launum, meðallaunin 700 þúsund. Ef hægt er að ná samkomulagi um það að gera þetta fyrir lægst launaða fólkið sem er mjög skynsamlegt og fínt, en ná síðan samkomulagi um það að þeir sem eru með meðallaun og þar fyrir ofan fái svona frá eitt og upp í 2,7 prósent hækkun. Mér finnst það merkilegt.“

„Það sem mér finnst annað í þessu sambandi er þáttur ríkisvaldsins, sem mér finnst að mörgu leyti ánægjulegur og góður, og hef ekki miklar athugasemdir við það. En það sem ég hef mestar áhyggjur af er það sem Svavar var að segja og tala um áðan. Sko þetta eru ekki þjóðarsáttarsamningar. Í þjóðarsáttarsamningunum sem voru leiddir af Alþýðusambandinu og Vinnuveitendasambandinu, þá var haft samráð við fjöldann allan. Það var samið þar fyrir öll stéttarfélög innan ASÍ. Sjómenn, iðnaðarmenn, það var rætt við bændasamtökin, það var samið við bankanna, samningarnir náðu til sveitarfélaganna. Þetta var ógurleg vinna. Þarna er því öllu saman sleppt. Þannig að þarna eru raunverulega tveir hópar, þ.e.a.s. verslunarmenn og verkalýðsfélögin, sem eru að semja án samráðs meira að segja við Alþýðusambandið. Hættan er sú að þeir sem koma á eftir, þeir séu ekki sáttir við þessa niðurstöðu og eyðileggja hana. Svo ég óttast það satt að segja að þetta verði skammtímasamningar í raun,“ bætir Sighvatur við og bendir á að iðnaðarmenn, BHM og kennarar hafi þegar lýst yfir ósætti sínu.

Umræðurnar eru að finna í heild sinni hér: