„Þetta eru ekki síðustu stráin“

Braggamálið í Reykjavík í 21 í kvöld:

„Þetta eru ekki síðustu stráin“

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir og Vigdís Hauksdóttir
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir og Vigdís Hauksdóttir

Endurgerð húsanna og braggans í Nauthólsvík átti að kosta 158 milljónir en kostnaðurinn er orðinn 415 milljónir og verkinu samt enn ekki lokið – þetta er braginn, skáli og fyrirlestrarsalur í gamla náðhúsinu. Í frétt Rúv kom fram að kostnaðurinn væri um 900 þúsund krónur á fermetrann.

Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins og Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs og fulltrúi Viðreisnar í meirihluta borgarstjórnar mæta til Lindu Blöndal í 21 í kvöld.

Vigdís segir fleira muni koma upp varðandi þetta mál og útgjöld borgarinnar. Hún segir borgarstjóra ábyrgan fyrir málinu, skrifstofa fjármála heyri beint undir hann. Vigdís bar upp tillögu um að málið yrði rannsakað af utanað komandi aðila en sú tillaga var felld af meirihlutanum. Þórdís Lóa segir að hún hafi ekki áhyggjur af því að innri endurskoðun Ráðhússins – sem mun fá málið til rannsóknar – sé að einhverju leyti vanhæf þar sem um er að ræða fyrrverandi starfsmann á skipulagssviði borgarinnar til meira en tíu ára sem var verkefnisstjóri uppgerða braggans. Þórdís segist ekkert vilja segja neitt um hvaða reglur hafi mögulega verið brotnar og innri endurskoðandi hafi ekki haft tækifæri til að sjá hvað væri í gangi fyrr en núna, málið hafi komið upp í ágúst sl. Vigdís segir á móti að innri endurskoðandi skrifi upp á ársreikninga og verkefnið hafi hafist fyrir það löngu að hann hafi kvittað upp á ársreikning þar sem reikningar braggans voru í.

Reikningarnir út af einstaka verkþáttum eru gríðarlega háir og með kaldhæðni mætti segja að sumt sé hálfgerður brandari, eins og stráin í kringum húsið sem kostuðu 757 þúsund og voru svona dýr af því að þau eru flutt inn frá Danmörku og höfundarréttarvarin.

En arkitektarvinnan er upp á 28 milljónir, ástandsskoðun Eflu verkfræðistofu 27 milljónir, raflagnir 35 mílljónir, rif á bragga upp á 30 milljónir, hönnun á lóð 5 milljónir og frágangur á lóð 21 milljón. En hæst er það 105 milljónir fyrir smíðavinnu og miðlægur umsýslukostnaður 12 milljónir.

Engin kostnaðaráætlun var gerð um verkið í Nauthólsvík og það ekki boðið út og því algert brot á innkaupareglum borgarinnar.

Vigdís segir fleira muni koma upp varðandi þetta mál og segir fleiri tilefni til skoðunar s.s. uppbygging Mathallarinnar á Hlemmi. „Þetta eru ekki síðustu stráin“. segir Vigdís.

Nýjast