„Þetta er víst gott, aumingi!“

„Þetta er víst gott, aumingi!“

ÍSAM, heildsölu- og framleiðslufyrirtæki sem á Mylluna, Ora, Kexverksmiðjuna Frón og Kexsmiðjuna boðar 3,9% hækkun á öllum vörum fyrirtækjanna verði kjarasamningar samþykktir. Þetta kemur fram í tölvupósti Hermanns Stefánssonar, forstjóra ÍSAM, til viðskiptavina. Í tölvupóstinum segir líka að allar innfluttar vörur muni hækka um 1,9%, verði samningarnir samþykktir. Verkalýðsforingjar sem fyrir skömmu fögnuðu nýjum kjarasamningum hafa gagnrýnt þau fyrirtæki harðlega sem hafa lýst yfir að hækkun sé óhjákvæmileg í ljósi nýrra samninga.

Vilhjálmur Birgisson Vilhjálmur Birgisson, formaður verkalýðsfélags Akraness og 1. varaforseti ASÍ skrifaði pistil sem birtur var á Hringbraut þar sem hann túlkaði þessa ákvörðun sem hótun. Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar tekur í svipaðan streng og gagnrýnir ÍSAM. Sólveig segir á Facebook að breytingar séu nauðsynlegar í samfélaginu:

„Hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar sem hefur verið troðið ofaní okkur eins og kássu búinni til úr grænum baunum, sýrópi, fransbrauði, kexi, síld og tannkremi (og argað um leið og við kúgumst: Þetta er víst gott, aumingi!) hefur sem grundvallarlygi að ekkert sé betra fyrir lýðræðið en óheft markaðsfrelsi. En ekkert er and-lýðræðislegra en auðvaldið, það er gömul saga og glæný,“ segir Sólveig og bætir við að lokum:

„Ætli við verðum ekki bara að vera pínku glöð yfir því að Hermann afhjúpar sig og sinn þankagang svona rösklega. Það hlýtur að færa okkur endurnýjaðan baráttuanda og skarpan fókus á það hversvegna breytingar eru nauðsynlegar í samfélaginu.“

Nýjast