Þetta er fyndið: „ég ætla að vinna í því að róa mig bara aðeins“

„Til eru hópar í samfélaginu sem eiga ekki undir högg að sækja vegna sinnar kynvitundar, kynhneigðar, húðlitar, líkamlegs atgervis, holdafars eða kyneinkenna. Í raun eru það lang flestir í íslensku samfélagi. En er þó ekki þar með sagt að það fólk upplifi aldrei mótlæti. Fólk er til dæmis alltaf að gera grín a[ð] miðaldra, gagnkynhneigðum, hvítum karlmönnum á þeirra kostnað. Mjög erfitt líf.“

Á þessum orðum hefst aðsend grein transkonunnar Uglu Stefaníu Kristjönudóttur Jónsdóttur, sem birtist á Vísi í gær. Ugla gagnrýndi á dögunum umdeilda skopmynd Helga Sigurðssonar sem birtist í Morgunblaðinu. Á myndinni er hent gaman að nýjum lögum um kynrænt sjálfræði með því að sýna nakinn karlmann í búningsklefa kvenna.

\"\"

Mynd: Morgunblaðið

Með samþykkt laga um kynrænt sjálfræði fyrr í sumar var staðfestur með lögum réttur einstaklings til að breyta opinberri kynskráningu sinni í samræmi við eigin upplifun og án þess að þurfa að sæta skilyrðum um sjúkdómsgreiningu og læknismeðferð.

Ugla hefur sjálf sætt gagnrýni fyrir að gagnrýna mynd Helga, og hún verið sökuð um húmorsleysi. Á meðal þeirra sem hafa gagnrýnt Uglu vegna þessa er Haukur Arnar Birgisson, en það gerði hann í aðsendri grein í Fréttablaðinu á dögunum.

Í grein sinni útskýrir Ugla hvers vegna henni er ekki hlátur í huga. „Fyrir hinn almenna lesanda var þessi skopmynd kannski frekar saklaus og jafnvel fyndin, og lái ég fólki ekki fyrir það að hafa öðruvísi húmor en ég. Ég á til dæmis alveg vini sem finnst Big Bang Theory æðislegir þættir,“ segir Ugla.

„En skopmyndin sjálf hefur beina skírskotun í blákaldan lygaáróður sem er undirstaða grófra fordóma og andstöðu við réttindastöðu trans fólks, og getur því seint talist frumleg eða hágæða ádeila,“ heldur hún áfram. „Alið er á þeim ótta að framfarir í réttindabaráttu trans fólks geri það að verkum að karlmenn nýti sér lög til að áreita saklausar og hjálparvana konur í sundklefum eða klósettum. Fyndið.“

Ugla segir að fyrir fólk sem hafi ekki þurft að þola afleiðingar þessarar umræðu sé eflaust auðvelt að segja að hún kunni ekkert gott að meta. „Í sömu andrá og Haukur skellti upp úr þegar skopmyndin prýddi blaðsíðu Morgunblaðins í síðustu viku var tólfta svarta trans konan á þessu ári myrt í Bandaríkjunum. Þær voru allar myrtar af fólki sem gerir ekki greinarmun á þeim og þessum „feita og krumpaða karlmanni“ í kvennaklefanum. Fyndið.“

„Ýmsar lagasetningar hafa einnig tekið gildi í Bandaríkjunum út af þessum áróðri sem skikkar trans konur eða fólk eins og mig til að nota karlaklósettið á almannafæri sem eykur enn frekari hættu á áreiti og ofbeldi. Fyndið.“

Hatursglæpir aukast

Ugla bendir á að hatursglæpir hafi aukist um 81 prósent í Bretlandi og að hún hafi sjálf þurft að tilkynna mjög gróft og síendurtekið áreiti til lögreglu á undanförnum misserum. „Tvær trans konur hafa verið myrtar þar [í Bretlandi] á undanförnum misserum og er ekki búist við neinni framför í réttindabaráttu trans fólks í Bretlandi eða Bandaríkjunum þar sem allt púður fer í það að berjast gegn svona hræðsluáróðri. Fyndið.“

„Á Íslandi hafa hatursglæpir gagnvart trans fólk aukist, þar sem hefur meðal annars verið ráðist tvisvar á trans konu [með] stuttu tímabili og annar[r]i trans konu hent út af skemmtistað fyrir að vera „gaur í kellingapels“. Fyndið.“ 

Hún segist ekki geta stjórnað því hvað öðrum finnist fyndið, en að mikilvægt sé að hafa í huga að samhengi hlutanna skipti máli. „Mín gagnrýni hefur því alltaf snúist um að bjóða fólki upp á að kynna sér aðrar hliðar málsins og hvers vegna svona grín getur verið smekklaust og óviðeigandi. Fólk getur svo sjálft ákveðið hvort það breytir um sýn á þetta tiltekna grín.“ 

„Að standa sig a[ð] því að hlæja a[ð] gríni sem getur verið skaðlegt öðrum er ekki þægileg tilfinning. Það er mun auðveldara fyrir fólk eins og Hauk að henda bara í pistil í Fréttablaðinu til að réttlæta hláturinn í stað þess að setja sig í spor þeirra sem verða fyrir barðinu á spauginu,“ segir Ugla og bætir að lokum við:

„En í guðanna bænum, endilega haldið áfram að hlæja. Ég vil ekki spilla góðu gríni og ætla að vinna í því að róa mig bara aðeins og læra að hlæja a[ð] þessu öllu saman. Þetta er nefnilega svo fyndið.“