Þessu máli er hvergi nærri lokið

Magnús Ragnarsson, framkvæmdastjóri sölusviðs hjá Símanum, segir í samtali við Morgunblaðið í dag að fyrirtækið vinni nú að því að safna saman upplýsingum sem það muni leggja fyrir Samkeppniseftirlitið á næstunni. „Það ætti að vera nóg að vitna í sölugögn RÚV sem er að mínu viti besta sönnunargagnið. Þar kemur orðrétt fram að fyrirtæki þurfi að kaupa birtingar fyrir 10 milljónir króna í júní og júlí til að tryggja að auglýsing þeirra birtist í kringum leiki Íslands. Við munum á næstunni safna saman gögnum og leggja fyrir eftirlitið,“ segir Magnús og bætir við að engin niðurstaða sé komin í málið. „Þetta er einungis frummat og nú gefst okkur tækifæri til að koma okkar sjónarmiðum betur á framfæri, líkt og við munum gera. Þessu máli er hvergi nærri lokið,“ segir Magnús.

Þá er haft eftir Páli Gunnari Pálssyni, forstjóra Samkeppniseftirlitsins, að RÚV hafi staðfest við eftirlitið að enginn áskilnaður hafi verið gerður um lágmarkskaup á auglýsingum í kringum HM. Niðurstaða eftirlitsins sé þó einungis frummat og því gefist aðilum á markaði nú tækifæri til að koma athugasemdum á framfæri.