Stráin fyrir utan braggann kostuðu 757 þúsund kr.

Strá sem voru gróðursett fyrir utan braggann í Nauthólsvík kostuðu Reykjavíkurborg 757 þúsund krónur. Samkvæmt heimildum Eyjunnar er um að ræða sérstök strá sem eru höfundaréttavarin. Voru þau flutt sérstaklega inn til landsins frá Danmörku og heita á íslensku dúnmelur. Dúnmelur er stórvaxið gras og nauðalíkt hinu náskylda melgresi sem er að finna um allt land.

Eyjan hefur fjallað ítarlega um braggablúsinn svokallaða í Nauthólsvík. Um er að ræða framkvæmdir á þremur húsum, bragganum, skála og fyrirlestrasal sem kenndur er við náðhús. Byggingarnar voru reistar árið 1943 við Hótel Winston sem stóð þá við Reykjavíkurflugvöll. Upphaflegt kostnaðarmat á verkefninu var 158 milljónir, en heildarkostnaður er nú kominn upp í 415 milljónir, eða 257 milljónum fram úr kostnaðaráætlun og liggur endanlegur kostnaður ekki fyrir. Til stendur að Háskólinn í Reykjavík leigi braggann af Reykjavíkurborg fyrir 694 þúsund krónur á mánuði eða 8,3 milljónir á ári. Það þýðir að það mun að minnsta kosti taka hálfa öld til að greiða upp húsnæðið, en þessi upphæð er án nokkurra vaxtagjalda.

Nánar á

http://www.dv.is/frettir/2018/10/09/thessi-stra-fyrir-utan-braggann-kostudu-757-thusund-kronur-hofundarettavarin-og-keypt-fra-danmorku/