Þekking er gjaldmiðill framtíðarinnar

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands við útskrift í gær:

Þekking er gjaldmiðill framtíðarinnar

„Þekking er gjaldmiðill framtíðarinnar,“ sagði Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, við brautskráningu 437 kandídata í Háskólabíói í gær, en þekkingin hefði fært landsmönnum meiri hagsæld og öryggi en nokkurn hefði getað órað fyrir.

„Rannsókna- og nýsköpunarstarf og markviss hagnýting rannsóknaniðurstaðna hefur fært okkur Íslendingum meiri hagsæld og meira öryggi en nokkurn hefur getað órað fyrir. Lífslíkur og lífskjör almennings hafa stórbatnað og tækifæri til menntunar og símenntunar margfaldast.  Fleiri fá nú tækifæri til að finna og rækta hæfileika sína og hugsjónir en nokkru sinni fyrr,“ sagði rektor í dag og kvaðst fagna því að stjórnvöld hefðu sett menntamál í forgang í stjórnarsáttmála sínum.  

Hann talaði líka með skýrum hætti inn í samtímann: "Það er höfuðatriði að fjölbreytnin og gróskan í íslensku þjóðfélagi endurspeglist á hverjum tíma í háskólasamfélaginu, enginn sé afskiptur og engir hæfileikar vanræktir.  Við Íslendingar þurfum líka að uppræta úrelt viðhorf, mannskemmandi venjur og þá valdníðslu sem afhjúpuð hefur verið á undanförnum mánuðum í samskiptum kynjanna.  Hér getur Háskóli Íslands gengið á undan og sýnt gott fordæmi í krafti sérþekkingar og jafnréttishugsjónar.

Ekki má gleyma að í dag stöndum við frammi fyrir ótal öðrum áskorunum sem ógjörningur var að sjá fyrir við upphaf tuttugustu aldar.  Loftslagsbreytingar ógna lífi á jörðinni, upplýsingamengun grefur undan lýðræði, vélmenni munu í mörgum tilvikum leysa mannshöndina af hólmi, síaukin söfnun auðs á fáar hendur ógnar félagslegu jafnvægi og vaxandi flóttamannastraumur eykur sundurþykkju í samfélögum heims. Andspænis slíkum viðfangsefnum skiptir miklu að við höldum tryggð við háskólahugsjónina og sýnum þann stórhug og dug sem einkenndi frumherja háskólastarfs á Íslandi. Til að takast á við áskoranir samtímans þurfum við öflugan Háskóla Íslands – skóla sem stenst samanburð við fremstu háskóla Norðurlanda og nýtur óskoraðs trausts hjá þjóðinni og stuðnings stjórnvalda," sagði rektor í gærdag. 

Nýjast