Þeistareykjavirkjun hlaut alþjóðleg gullverðlaun

Þeistareykjavirkjun, jarðvarmavirkjun Landsvirkjunar á Norðausturlandi, hefur hlotið gullverðlaun Alþjóðasamtaka verkefnastjórnunarfélaga. Verðlaunin eru stærstu verðlaun sem veitt eru í fagi verkefnastjórnunar á heimsvísu. Meginstef verðlaunanna í ár var sjálfbærni. 

Þeistareykjavirkjun hlaut verðlaunin í flokknum yfir stór verkefni. Úrskurður dómnefndar tilgreinir sem helstu styrkleika verkefnisins framúrskarandi samskipti við hagsmunaaðila á undirbúnings- og framkvæmdastigi og samhentan verkefnishóp með áherslur á öryggis- og umhverfismál, í anda stefnu Landsvirkjunar um ábyrga nýtingu endurnýjanlegra orkuauðlinda með sjálfbærni að leiðarljósi. 

„Verðlaunin eru mikill heiður fyrir Landsvirkjun og alla þá sem komu nærri Þeistareykjaverkefninu; starfsfólk, ráðgjafa og verktaka, ekki síst í ljósi þess að þema verðlaunanna í ár var sjálfbærni. Það er ánægjulegt að viðleitni okkar til þess að vanda til verka og ganga um náttúruauðlindirnar á sjálfbæran hátt skuli vekja athygli á alþjóðavettvangi, enda er sjálfbær nýting auðlinda eitt mikilvægasta hagsmunamál okkar allra um þessar mundir,“ segir Hörður Árnason, forstjóri Landsvirkjunnar.

Hin alþjóðlega IPMA-verðlaunahátíð fór nú fram í 18. skipti og var haldin í Mexíkó í ár. Yfir 250 fagmenn á sviði verkefnastjórnunar, hvaðanæva að úr heiminum, sóttu hátíðina. Landsvirkjun sendi inn umsókn um að taka þátt í samkeppninni í mars á þessu ári og í framhaldinu kom hingað til lands fimm manna sendinefnd á vegum IPMA til að taka verkefnið út. Í úttektinni fólst meðal annars heimsókn á verkstað og ítarleg samtöl við innri og ytri hagsmunaaðila verkefnisins. 

Þeistareykjastöð er fyrsta jarðvarmastöðin sem Landsvirkjun hefur byggt frá grunni en hún er alls 90 MW. Rannsóknir á jarðhitasvæðinu á Þeistareykjum teygja sig áratugi aftur í tímann. Við mat á umhverfisáhrifum var miðað við allt að 200 MW virkjun á svæðinu, en núverandi verkefni var um byggingu 90 MW virkjunar í tveimur áföngum. Framkvæmdir stóðu í rúm þrjú ár.