Þeir sem ginnkeyptir eru fyrir popúlisma hafa fallið fyrir miðflokknum - sjálfstæðisflokkur á villigötum

„Sögulega er Sjálfstæðisflokkurinn málsvari hægristefnu. En undanfarin ár hefur hann orðið upptekinn af því að vera breiðfylking. Flokkurinn hefur lent milli skips og bryggju. Frjálslyndari hægrimenn finna farveg í Viðreisn, hinir íhaldssamari geta stutt Framsókn og þeir sem ginnkeyptir eru fyrir popúlisma fallið fyrir Miðflokknum. Flokknum gæti reynst happadrýgra að tala með skýrum hætti fyrir rótgrónum gildum.“

Þetta segir Kristín Þorsteinsdóttir í leiðara í Fréttablaðinu í dag. Þar fjallar Kristín um orkupakkamálið og segir að vísbendingar séu um að Vinstri græn og Framsóknarflokkurinn séu að gefa eftir en ríkisstjórnarflokkarnir voru lengi vel samstíga þegar kom að 3 orkupakkanum. Þá segir Kristín að Sjálfstæðisflokkurinn hafi villst af leið:

„Frjálslyndir hægrimenn eru landlausir líkt og í mörgum öðrum löndum. Hefðbundin mál flokksins um takmörkuð ríkisafskipti, frelsi í viðskiptum, víðsýni í samskiptum við útlönd og aga í ríkisfjármálum hafa fallið í skuggann. En eftirspurn eftir slíkum málflutningi er ekki horfin. Hinar öfgarnar eru varla kostur. Stór hægriflokkur mun aldrei geta keppt í pólitískum yfirboðum við hreina popúlista eins og Miðflokkinn.“

Þá segir Kristín á öðrum stað að orkupakkamálið sé „strámaður úr smiðju Steve Bannon eða Dominic Cummings, þekktra áróðursmeistara.“ Hún bætir við að orkupakkamálið sé prófraun á stjórnmálaflokka sem vilja láta taka sig alvarlega.

„Ýmislegt bendir nú til þess að Vinstri græn og Framsókn séu að gefa eftir í afstöðu sinni. Það hlýtur að vera kærkomið tækifæri fyrir forystu Sjálfstæðisflokksins til að taka forystu á hægri vængnum, líkt og hann gerði á árum áður,“ segir Kristín og telur að nú sé tækifæri fyrir Sjálfstæðisflokkinn til að slá nýjan tók og tala skýrt fyrir alþjóðasamstarfi og skynsamlegum samskiptum við helstu viðskiptalönd okkar. Kristín spyr: „Hvers vegna ætti að tefla farsælum samskiptum við vinaþjóðir í tvísýnu þegar engir hagsmunir eru undir?“

Kristín endar svo leiðara sinn á þessum orðum:

„Hvorki né afstaða fer öllum stjórnmálaflokkum illa, hvort sem þeir eru á hægri væng eða vinstri. Best er að taka afstöðu með sjálfum sér og láta moldviðri popúlistanna sem vind um eyru þjóta.“