Þeir eru allir mættir aftur: listamaðurinn, spaðinn og sjálfstæðismaðurinn stærstir í bankanum

Fjárfestingafélagið Stoðir er orðið stærsti íslenski fjárfestirinn í hluthafahópi Arion banka með um 4,5 prósenta hlut af útistandandi hlutafé bankans. Stoðir er í meirihlutaeigu Jóns Sigurðssonar, Einars Arnar Ólafssonar, Magnúsar Ármann, Þorsteins M. Jónssonar og Tryggingamiðstöðvarinnar (TM) meðal annars. Þá á Sigurður Bollason og félög honum tengd samtals 2 prósent hlut í bankanum.

Frá þessu er greint í Markaðnum.

Stærstu hluthafar Stoða eru eignarhaldsfélagið S121 með 62 prósenta hlut, Arion banki með um 18 prósenta hlut og Landsbankinn með 15 prósenta hlut. Fyrir áttu Stoðir, sem er eitt stærsta fjárfestingafélag landsins og var með um 18 milljarða í eigið fé í ársbyrjun 2018, um 0,65 prósenta hlut í bankanum.

Stoðir margfalda hlut sinn í Arion banka

Í Markaðnum er greint frá því að miðað við núverandi hlutabréfaverð Arion banka er eignarhlutur Stoða upp á 4,5 prósent metinn á rúmlega sex milljarða króna. Fjárfestingafélagið margfaldaði því hlut sinn í Arion banka í síðustu viku þegar félagið keypti um þriðjung af þeim tíu prósenta hlut sem eignarhaldsfélagið Kaupþing, stærsti einstaki hluthafi bankans, seldi innlendum og erlendum fjárfestum með tilboðsfyrirkomulagi.

Eignarhlutur Kaupþings, 200 milljónir hluta að nafnverði, var að mestu seldur innlendum fjárfestum á genginu 70 krónur á hlut. Gengi bréfa bankans hefur hækkað frá þeim tíma um nærri tíu prósent og stóð í 76,9 krónum á hlut við lokun markaða í gær.

Kunnugleg andlit

Sá hópur fjárfesta sem er með tögl og hagldir í Stoðum í gegnum S121 samanstendur meðal annars af félögum tengdum Jóni Sigurðssyni, Einari Erni Ólafssyni, Magnúsi Ármann og Þorsteini M. Jónssyni. Fjárfestahópurinn eignaðist ásamt TM meirihluta í Stoðum þegar hópurinn keypti rúmlega 50 prósenta hlut í fjárfestingafélaginu af Glitni HoldCo og erlendum fjármálastofnunum í ársbyrjun 2017.

Sigurður Bollason - Spaði í kvennamálum

\"\"

Sigurður Bollason er fjárfestir og stór hluthafi í Kviku banka meðal annars.Sigurður Bollason hefur að undanförnu verið að byggja upp stöðu í bankanum, sem er meðal annars fjármögnuð í gegnum framvirka samninga hjá Íslandsbanka, og keypti jafnframt umtalsverðan eignarhlut í lokuðu útboði Kaupþings í síðustu viku.

Þá hefur Sigurður Bollason að undanförnu verið að byggja upp stöðu í bankanum, sem er meðal annars fjármögnuð í gegnum framvirka samninga hjá Íslandsbanka, og keypti jafnframt umtalsverðan eignarhlut í lokuðu útboði Kaupþings í síðustu viku.

Sigurður hefur lengi verið einn efnaðasti Íslendingurinn. Í úttekt DV frá árinu 2011 um afdrif útrásarvíkinga sagði:

„Hann var heppinn, seldi hlutabréf sín í FL Group árið 2006 og græddi mikið á því. Síðan hefur hann verið í góðum málum, hefur tekist vel upp með fjárfestingar sínar og er sagður klár strákur. Það fer lítið fyrir honum en hann er mjög lunkinn, ferðast víða og var svolítill spaði í kvennamálum að sögn félaganna, eins og gengur.

Þá var greint frá því í DV það sama ár að tvö félög Sigurðar hefðu verið lýst gjaldþrota

Einnig sagði í DV árið 2011 að Sigurður væri einn helsti viðskiptafélagi Magnúsar Ármann og urðu þeir frægir þegar þeir keyptu stóran hlut í Karen Millen á sínum tíma. Sigurður er sonur Bolla, sem oft er kenndur við fataverslunina Sautján.

Jón Sigurðsson - Þykir ekki leiðinlegur

\"\"

Jón Sigurðsson er fyrrverandi forstjóri FL Group og stjórnarmaður hjá drykkjarvöruframleiðandanum Refresco Garber frá 2009. Fyrir um ári síðan luku Stoðir sölu á tæplega 9 prósenta hlut sínum í Refresco, fyrir um 19 milljarða króna.

Í úttekt DV frá árinu 2011 um afdrif útrásarvíkinga sagði: „Jón býr á Seltjarnarnesi en hann færði fasteignir á Unnarbraut 17 og 19 á Seltjarnarnesi yfir á eiginkonu sína, Björgu Fenger, árið 2009. Ætlunin var að rífa Unnarbraut 19 en úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála kom í veg fyrir það.

Hann er eftirsóttur ráðgjafi í yfirtökum á fyrirtækjamarkaði á Íslandi þar sem hann þykir gríðarlega klár og einstaklega vel gefinn. Hann er mikill rólyndismaður og er sagður geta svæft heilu hverfin með nærveru sinni. Hann þykir þó ekki leiðinlegur, er bara vinnusamur og þessi endurskoðendatýpa, eins og pabbi hans. Eignir Jóns voru kyrrsettar en úrskurðurinn var felldur úr gildi.

Einar Örn Ólafsson sá um söluferli Morgunblaðsins

\"\"

Einar Örn Ólafsson er fyrrverandi forstjóri Skeljungs og stjórnarmaður í TM. Á meðal þeirra fjárfesta sem fengu úthlutað hvað stærstum hluta í Arion banka í útboðinu var einmitt TM, en tryggingafélagið keypti samtals 14 milljónir hluta samkvæmt nýjum lista yfir alla hluthafa bankans. TM á núna um 0,65 prósent af heildarhlutafé Arion banka.

Einar Örn er mikill Sjálfstæðismaður. Stuðningsmannafélag Bjarna Benediktssonar var sem dæmi skráð heima hjá Einari Erni. Í DV árið 2009 var greint frá því að Bjarni hefði ekki gefið upp í skrá Alþingis yfir hagsmunatengsl alþingismanna.

Einar Örn Ólafsson, var starfsmaður Glitnis og fékk þar kúlulán. Hann hafði umsjón með söluferli Skeljungs fyrir Glitni. Var hann látinn fara þaðan og varð fljótlega framkvæmdastjóri Skeljungs.

Þá sá Einar um söluferli Árvakurs en hann starfaði sem forstöðumaður fyrirtækjasviðs Íslandsbanka. Í DV árið 2009 sagði:

„DV hefur greint frá því hvernig honum var vikið síðar úr bankanum vegna vafasamra afskipta hans af sölu ráðandi hlutar bankans í Skeljungi. Einar Örn er nú forstjóri Skeljungs. DV hefur einnig sagt frá því að Einar Örn hýsti af einhverjum ástæðum stuðningsmannafélag Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, heima hjá sér að Einimel 18 í Reykjavík. DV hefur einnig greint frá því að Einar Örn bauð Gísla Marteini Baldurssyni, flokksbróður sínum og borgarfulltrúa, í laxveiðar til Rússlands sumarið 2007.“

Þorsteinn M. Jónsson – Listamaðurinn í hópnum

\"\"

Þorsteinn M. Jónsson, oft kallaður Steini í Kók, er fyrrverandi aðaleigandi Vífilfells og fyrrverandi stjórnarmaður í Glitni og FL Group.

Í úttekt DV frá árinu 2011 um afdrif útrásarvíkinga sagði um Þorstein: „Hann hefur komið sér vel fyrir þar og ekur um á Range Rover en í bílakjallara Magnúsar Ármanns var meðal annars Cadillac Escalade-lúxusbifreið sem metin er á um níu milljónar króna og var í eigu hans. Hann er ekki á flæðiskeri staddur en árið 2007 greiddi hann sér arð upp á 250 milljónir króna í gegnum félagið Sólstafi þrátt fyrir 521 milljón króna tap.

Þorsteinn átti félagið og var eini maðurinn í stjórn þess. Þá seldi hann Vífilfell. Hann er sagður ljúfur drengur sem sjaldan skiptir skapi. Hann var kallaður listamaðurinn í hópnum vegna mikils áhuga á klassískri tónlist. Þá þykir hann hafa einstaklega góðan smekk á konum, enda alltaf með fegurðardrottningum.

Magnús Ármann hinn síkáti – Geymdi eðalvagna fyrir útrásarvíkinga

\"\"

Magnús Ármann er fjárfestir og fyrrverandi stjórnarmaður FL Group. Í úttekt DV frá árinu 2011 um afdrif útrásarvíkinga sagði:

„Býr í Barcelona þar sem hann lifir hátt og er með einkabílstjóra og barnapíu. Hann starfar með föður sínum sem er stórtækur í innflutningi frá Kína.

Sjálfur er hann mikill ferðalangur og býður oft vinum sínum með, hvort sem ferðinni er heitið upp á fjöll eða til sólarlanda. Eins er hann mikill bílaáhugamaður og átti ekki bara fjölda lúxusbíla, sem voru sumir hverjir fluttir á nafn föður hans, heldur átti hann líka bílageymslu þar sem útrásarvíkingarnir geymdu eðalvagnana sína um tíma, eða þar til um þá var fjallað í fjölmiðlum.

Þá voru þeir fluttir á brott, en talið var að einhverjir þeirra væru á leið úr landi. Á meðal þeirra farartækja sem fjallað var um voru sandbíll, fjórhjól og forláta Jaguar. Magnús hóf ferilinn sem súlustaðareigandi og var vinsælasti útrásarvíkingurinn þar sem hann var sagður síkátur og örlátur. Góða skapið fór aldrei af honum, hvorki fyrir né eftir hrun. „Ég borga,“ var hans frasi og dró hann iðulega upp veskið fyrir félagana. Einu sinni fór hann út að borða á Akureyri og borgaði fyrir alla á veitingastaðnum.